
Mestu skógareldar í Amazon í þrettán ár
Alls voru yfir 2.200 skráðir skógareldar í Amazon í júní, og óttast sérfræðingar að árið í ár verði verra en í fyrra. Þurrkatímabilið hefst jafnan í júní, og er verst í ágúst. Í fyrra voru yfir 30 þúsund eldar skráðir í skóginum í ágúst, þrefalt meira en í sama mánuði árið áður.
Geimrannsóknarstofnun Brasilíu athugar ástand skóganna með gervihnattamyndum. Að þeirra sögn hafa eldarnir í júní ekki verið fleiri síðan árið 2007, en þá voru þeir 3.500 talsins. Flestir eru eldarnir kveiktir af manna völdum, eða beintengdir skógareyðingu. Oft brenna bændur skóglendi til að stækka ræktunarsvæði sín.
Óttast að ástandið eigi eftir að versna
Eyðing Amazon-skógarins var mikil það sem af er ári áður en þurkkatímabilið hófst. Frá janúar og út maí var yfir tvö þúsund ferkílómetrum skóglendis eytt. Það er rúmlega þriðjungi meira en á sama tíma í fyrra.
Umhverfissinnar saka Jair Bolsonaro, forseta Brasilíu, um að hvetja til eyðingu skóga í Amazon. Hann hefur kallað eftir auknu svæði fyrir bændur og námuvinnslu á vernduðum svæðum skógarins. Sérfræðingar óttast einnig að auknir skógareldar geti valdið meiri hættu á öndunarerfiðleikum hjá fólki.