Kaup Storytel þýða stóraukna rafvæðingu bóka

Mynd: Freyr Arnarsson / RÚV

Kaup Storytel þýða stóraukna rafvæðingu bóka

02.07.2020 - 10:56

Höfundar

Sænska fyrirtækið Storytel AB, móðurfélag Storytel á Íslandi, hefur keypt 70 prósenta hlut í Forlaginu. Stjórnarformaður Forlagsins segir þetta þýða stóraukna rafvæðingu bóka.

Forlagið er stærsta bókaútgáfa landsins og gefur árlega út um 150 titla. Storytel kom eins og stormsveipur inn á markaðinn með hljóðbækur og stjórnarformaður félagsins segir að 9% landsmanna séu nú áskrifendur.

Í heildina eru áskrifendur yfir 1,2 milljónir á Norðurlöndum. Stærsti seljandinn er Mál og menning. Kaupverðið er trúnaðarmál en Forlagið verður áfram rekið sem sjálfstætt fyrirtæki. 

„Við teljum að bæði höfundar og viðskiptavinir okkar hagnist vel á þessu,“ segir Rusdan Panday, stjórnarformaður Storytel. Spurður hvað muni breytast segir hann: „Vonandi birtast fleiri titlar á Storytel og fleiri sögur fyrir viðskiptavinina. Og einnig fyrir höfundana. Hjá þeim sem komast efst á lista hjá Storytel eykst salan á sölulægri titlum. Svo að eldri bækur ganga í endurnýjun lífdaga.“

Lengi hefur verið gagnrýnt að tónlistarmenn bíði skarðan hlut hjá streymisveitum á borð við Spotify. Halldór Guðmundsson, stjórnarformaður Forlagsins, segir að samningar rithöfunda séu betri en samningar tónlistarmanna við streymisveitur.

„Við munum reyna að skýra og einfalda þessa samninga og gera þá höfundum aðgengilegri með öllum hætti,“ segir Halldór. „En storytel er að borga höfundarlaun til allra og það hefur verið mikil búbót mörgum höfundum.“

En hvað sér Halldór fyrir sér að breytist helst í bókaútgáfu með því að Storytel eignast stærstu bókaútgáfuna? „Ég sé fyrst og fremst fyrir mér stóraukna rafvæðingu.“

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Storytel með tögl og hagldir í íslenskum bókabransa

Bókmenntir

Forlagið selur Storytel AB 70% hlut

Menningarefni

Bækur rjúka út í samkomubanni