Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Horfðu til nágrannaþjóða varðandi lengingu kjörtímabils

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Jón Sigurðsson
Ekki kemur eingöngu til greina að hámarka setu í forsetaembætti við tólf ár, segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Einnig hafi verið rætt um að miða tímalengdina við 15 ár. Aðalatriðið með frumvarpinu nú sé að fá svör við hvort fólk sé sammála því að tímamörk séu sett.

Forsætisráðuneytið birti á þriðjudag í samráðsgátt drög að breytingum á stjórnarskrá þar sem meðal annars er lagt til að kjörtímabil forseta verði sex ár. Verði breytingin samþykkt getur forseti aðeins boðið sig fram einu sinni til endurkjörs og ekki setið lengur en 12 ár í embætti.

Hljóti frumvarpið samþykki þingsins er gert ráð fyrir að breytingarnar taki gildi eftir að næsta kjörtímabili Guðna Th. Jóhannessonar, nýkjörins forseta Íslands, lýkur.

Katrín segir málið hafa verið rætt á fundum formanna flokkanna, sem hafa fundað reglulega um stjórnarskrármálið þetta kjörtímabil undir stjórn forsætisráðherra.

„Þarna er um að ræða eina embættið þar sem þjóðin er að kjósa sinn fulltrúa í, það er að segja í forsetaembættið,“ segir Katrín. „Það hafa komið upp þessi sjónarmið í stjórnarskrárumræðum síðustu ára um að það sé eðlilegt að hafa einhverja hámarkslengd á því tímabili sem hver einstaklingur getur setið í þessu mikilvæga embætti.“

Flestir vildu tímatakmarkanir

Fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að Félagsvísindastofnun HÍ hafi verið fengin síðasta sumar til að kanna viðhorf almennings til stjórnarskrárinnar, meðal annars til hlutverks forseta. Meirihluti þátttakenda var þeirrar skoðunar að hafa ætti tímatakmarkanir á hve lengi forseti gegndi embættinu.

Í fyrstu viðhorfskönnuninni voru 62% hlynnt því að takmarka lengd setu forseta í embætti, en einungis 14% voru því andvíg. Í þriðju könnuninni var hlutfallið komið upp í 72%. Af þeim tímatakmörkunum sem boðið var upp á völdu flestir, eða 40% svarenda, að takmarka ætti setuna við þrjú fjögurra ára kjörtímabil, eða 12 ár samtals.

Katrín segir að rætt hafi verið að fundum formannanna hvort leggja ætti til þrisvar sinnum fjögur ár, en síðan hafi verið ákveðið að horfa til lengri tíma. „Við litum til nágrannalandanna meðal annars í því samhengi,“ segir hún.

12 ár var ekki eina hámarkslengdin sem kom til greina, því einnig var rætt um að hafa fimmtán ára hámarkslengd, eða þrjú fimm ára kjörtímabil. Niðurstaðan var hins vegar að leggja til tvö sex ára tímabil.

„Stóra grundvallaratriðið sem við erum að vonast eftir að fá viðbrögð við inni á samráðsgáttinni er hvort fólk sé sammála því að það sé eðlilegt að hafa hámark á þeim tíma sem einstaklingur er í þessu mikilvæga embætti,“ segir ráðherra.