Hörð gagnrýni lögmanna í Hong Kong á nýju öryggislögin

02.07.2020 - 05:54
Erlent · Asía · Hong Kong · Kína · Stjórnmál
epa08520795 A man is detained and searched by police during a rally against the national security law in Hong Kong, China, 01 July 2020. Chinese President Xi Jinping has signed into law the national security legislation Beijing has tailor-made for Hong Kong, prohibiting acts of secession, subversion, terrorism and collusion with foreign forces to endanger national security.  EPA-EFE/JEROME FAVRE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Samtök lögmanna í Hong Kong lýsa þungum áhyggjum vegna nýju öryggislaganna sem tóku gildi í héraðinu í gær. Í yfirlýsingu samtakanna segir að lögin grafi undan sjálfstæði dómstóla í Hong Kong og dragi úr frelsi íbúa héraðsins. Eins greina þau frá áhyggjum sínum vegna loðins orðalags laganna. 

AFP fréttastofan greinir frá því að orðalagi laganna hafi verið haldið leyndum allt þar til þau tóku gildi. Lögin banna allan áróður gegn kínverskum stjórnvöldum, niðurrifsstarfsemi, hryðjuverk og kröfur um aðskilnað Hong Kong frá Kína. 

Bretar afhentu Kínverjum Hong Kong árið 1997 gegn því að íbúar héraðsins nytu aukinna réttinda og frelsis. Svonefnd eitt ríki, tvö kerfi-stefna hefur verið rekin, og á að gilda til ársins 2047. Margir gagnrýna að með nýju öryggislögunum sé grafið undan þeirri stefnu. 

Eftir að hafa kafað í gegnum nýju lögin sendu samtök lögmanna í Hong Kong frá sér harðorða fimm síðna yfirlýsingu þar sem gerð er grein fyrir vel á annan tug atriða sem valda þeim áhyggjum. Í fyrsta lagi er ákvörðun stjórnvalda um að halda innihaldi laganna leyndum þar til þau tóku gildi gagnrýnd. Þá bæta þau við að engin tilraun hafi verið gerð til þess að ráðfæra sig við sérfræðinga í málefnum Hong Kong. Lögmönnum, dómurum, lögreglu og íbúum Hong Kong var ekki gefið færi á að kynna sér lögin áður en þau tóku gildi, þar á meðal þau ákvæði sem sannarlega eru gegn ríkjandi lögum í héraðinu.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi