Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Gremja og óvissa meðal íbúa á landamærum Norðurlandanna

17.05.2020
 Mynd: EPA-EFE-Claus Fisker - RITZAU SCANPIX
Hertar takmarkanir á landamærum norrænu ríkjanna valda mikilli óvissu og gremju meðal margra sem búa á nálægt landamærum. Enn eru ferðatakmarkanir til Norðurlandanna og hafa þær skapað nýjar hindranir fyrir íbúa á landamærunum.

Upplýsingaþjónusta landamærasvæðanna gerði netkönnun, að beiðni Norræna stjórnsýsluhindranaráðsins, meðal íbúa á landamærasvæðum. Þetta kemur fram í tilkynningu norrænu ráðherranefndarinnar.

Miklir erfiðleikar við að sækja vinnu og hitta ættingja

Meðal þess sem íbúar nefna að hafi verið íþyngjandi eru erfiðleikar við að hitta skyldmenni sín í öðrum norrænum ríkjum, erfiðleikar tengdir starfi, áhyggjur af skattamálum, vandamál tengd nýjum stjórnsýsluhindrunum sem urðu til vegna ferðatakmarkana og miklir erfiðleikar við að sækja vinnu yfir landamæri.

Landamæri sem áður voru táknræn eru nú raunveruleg

82,5% þeirra sem svöruðu sögðu að ólík viðbrögð ríkjanna vegna kórónuveirunnar hefðu skapað vandamál. Alls sögðust 67% hafa átt í erfiðleikum með að hitta skyldmenni sín í öðru norrænu ríki og 59% sögðu að landamæraeftirlitið hefði valdið þeim áhyggjum.

Nokkur hluti svarenda lýsir áhyggjum af áhrifum mismunandi aðgerða norrænu ríkjanna vegna kórónuveirufaraldursins.  Landamæri sem voru aðeins táknræn hafa nú, á tímum faraldursins, orðið að raunverulegum múr sem skilur fólk að.

Alls luku 1.669 manns spurningakönnuninni í heild eða að hluta, frá mars og fram til loka júní. Þau sem svöruðu gerðu það að eigin frumkvæði og ekki ber að líta á samantektina sem vísindalega rannsókn.

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV