Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Furðar sig á færslu Áslaugar Örnu 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata og fyrsti flutningsmaður frumvarps um afglæpavæðingu fíkniefna sem fellt var á Alþingi fyrr í vikunni, furðar sig á nýrri Facebook-færslu Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra.

Í færslunni sem fréttastofa greindi frá fyrr í dag segir Áslaug að frumvarpið hafi ekki verið nægilega vel unnið og gagnrýnir að neysluskammtar séu ekki skilgreindir sérstaklega. 

Hafnar því að Sjálfstæðisflokkurinn hafi fyrstur sett málið á dagskrá 

Í færslunni segir Áslaug að Sjálfstæðisflokkurinn hafi fyrstur sett afglæpavæðingu á dagskrá. Hún vísar til skýrslu sem Kristján Þór Júlíusson, þáverandi heilbrigðisráðherra, lét vinna árið 2015. Þar hefði verið lagt til að hætt yrði að refsa fólki fyrir neysluskammta.

Halldóra Mogensen segist í samtali við fréttastofu hreinlega ekki skilja hvað Áslaugu gengur til. Hún hafnar því að Sjálfstæðisflokkurinn hafi fyrstur sett afglæpavæðingu fíkniefna á dagskrá. Hún bendir á að skýrslan sem Áslaug Arna vísar til hafi verið afleiðing þingsályktunartillögu um mótun stefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum og hliðarverkunum vímuefnaneyslu sem Píratar höfðu frumkvæði að.  

Segir Sjálfstæðisflokkinn horfa fram hjá breytingartillögum 

Halldóra furðar sig á tali um að frumvarpið sé illa unnið og segir Sjálfstæðisflokkinn tönnlast á því að þar séu neysluskammtar ekki skilgreindir. „Sjálfstæðisflokkurinn skautar framhjá því að inni í nefndinni hefur legið nefndarálit með breytingartillögum frá því í desember.“

Þá segir Halldóra að í breytingartillögu við frumvarpið sé lagt til að neysluskammtar séu skilgreindir í reglugerð, enda séu fordæmi fyrir því. Hún segir að í lögum um ávana- og fíkniefni séu ólögleg efni listuð í reglugerð. Lagt sé til að í reglugerðinni verði einnig skilgreining á neysluskömmum. Þá segir hún að heilbrigðisráðherra vinni nú að því að skilgreina neysluskammta í tengslum við neyslurými, og að þá vinnu mætti nýta.   

Hún segist hissa á því að Sjálfstæðisflokkurinn skuli setja fyrir sig „tæknileg atriði“ sem þau hafa haft marga mánuði til að bregðast við með tillögum að betrumbótum. „Ég veit bara ekki hvað þau eru að tala um,“ segir hún.   

Höfnuðu tillögu um að breyta frumvarpinu í þingsályktunartillögu 

Þá nefnir Halldóra að meirihlutinn á Alþingi hafi einnig hafnað tillögu um að breyta frumvarpinu í þingsályktunartillögu sem myndi fela heilbrigðisráðherra að leggja fram frumvarp um afglæpavæðingu fíkniefna innan skilgreinds tíma.