Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

ESB ræðir við lyfjafyrirtæki um kaup á remdesivir

02.07.2020 - 18:30
Mynd með færslu
 Mynd: Gilead Sciences
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins á nú í viðræðum við lyfjafyrirtækið Gilead til að reyna að tryggja ESB-ríkjum nægilegt magn af lyfinu remdesivir, sem hjálpað hefur þeim sem sýkst hafa af kórónuveirunni að jafna sig hraðar.

Greint var frá því í gær að bandarísk stjórnvöld hefðu keypt upp allar birgðir af lyfinu remdesivir sem eru til  í heiminum, rúmlega hálfa milljón skammta af bandaríska lyfjaframleiðandanum Gilead. 

Það er öll framleiðsla fyrirtækisins í júlí, og 90 prósent framleiðslunnar í ágúst og september. Samkvæmt því ætti ekkert ríki að gera fjárfest í lyfinu næstu þrjá mánuði. 

Gilead hefur einkaleyfi á framleiðslu remdesivir sem er framleitt gegn lifrarbólgu-C, en hefur einnig verið notað gegn ebólu. Rannsókn sem m.a. var framkvæmd í Danmörku bendir til þess að lyfið gagnist einnig gegn kórónuveirunni og geti stytt innlagnartíma á sjúkrahúsi úr 15 dögum niður í 11 daga.

Danska ríkisútvarpið DR hefur eftir Stefan De Keersmaecker, talsmanni framkvæmdastjórnarinnar, að viðræður standi nú yfir við Gilead um möguleikann á að tryggja ESB ríkjum nægar birgðir af lyfinu. Hann tjáði sig hins vegar ekki um hversu marga skammta væri verið að ræða um, né hvernig yrði greitt fyrir þá.

„Viðræðurnar eru of stutt komnar til að við getum gefið ítarlegri upplýsingar, sagði De Keersmaecker og bætti við að Gilead væri bara eitt þeirra lyfjafyrirtækja sem framkvæmdastjórnin hefði fundað með.

„Það er forgangsatriði hjá framkvæmdastjórninni að verja heilsu fólks. Það er líka ein af ástæðum þess að við höfum flýtt ferlinu þannig að remdesivir geti orðið aðgengilegt fyrir íbúa. Við vonumst til að fá það samþykkt fyrir vikulok.“