Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Dularfullur fíladauði í Botsvana

02.07.2020 - 04:35
epa05302160 A photograph made available on 12 May 2016 shows a herd of elephants grazing in Amboseli National Park in southern Kenya, 28 December 2015. At a major conservation conference held in Botswana in 2015, experts have said some 80,000 elephants have been killed by poachers in Africa since 2006, warning that African elephants could be extinct in a next few decades. Another study by Proceedings of the National Academy of Sciences puts the number even higher- more than 10,000 elephants have been killed in Africa from 2010 thorugh 2012.  EPA/DAI KUROKAWA
 Mynd: EPA
Yfirvöld í Botsvana leita nú skýringa á dauða vel á fjórða hundrað fíla í norðanverðu landinu á skömmum tíma. Fyrst bárust fregnir af fjölda dauðra fíla í byrjun maí, og voru alls 169 dýr dauð þegar mánuðirinn var liðinn. Um miðjan júní hafði fjöldinn rúmlega tvöfaldast, og var um 70 prósent dýranna að finna við vatnsból.

Niall McCann, stjórnandi dýraverndunarsamtakanna National Park Rescue, segist ekki hafa heyrt af slíkum fjölda dauðsfalla árum saman. Hann muni ekki eftir svona tilfellum utan þurrkatíma. 

Stjórnvöld í Botsvana hafa enn ekki fengið niðurstöður sýna úr hræjum fílanna. Því hafa engar upplýsingar fengist um hvað gæti hafa valdið dauða þeirra. Tvær helstu ályktanirnar eru eitrun eða óþekktur sjúkdómur. Í fyrstu var talið líklegast að eitrað hafi verið fyrir þeim með miltisbrandi, en að sögn Guardian hefur það verið útilokað.

Haft er eftir vitnum að sést hafi til sumra fílanna ganga í hringi. Það þykir benda til vandamála í taugakerfi þeirra. Sé litið á hræin, þá hafa sum þeirra fallið beint fram fyrir sig, sem þýðir að dýrin hafi drepist mjög skyndilega. Önnur hafi verið lengur að deyja. 

Fílar á öllum aldri og af báðum kynjum hafa drepist af þessum dularfullu völdum. Sést hefur til lifandi fíla sem eru veikburða og óvenju horaðir. Því er óttast að fleiri eigi eftir að drepast á næstu vikum. Skögultennur fílanna hafa hingað til verið látnar í friði. Verndarsinnar hvetja yfirvöld til þess að verja hræin svo veiðiþjófar naí ekki til þeirra. 

Guardian hefur eftir Cyril Taiolo, stjórnanda náttúrulífs- og þjóðgarðsstofnunar Botsvana, að sýni hafi verið send til rannsóknar. Vonast er til þess að niðurstöðurnar berist yfirvöldum innan næstu tveggja vikna. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV