Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Bíða eftir sérsmíðuðum vélbúnaði frá Danmörku í Baldur

02.07.2020 - 16:32
Innlent · Baldur · Flatey · Vesturland · Vesturland
Mynd með færslu
 Mynd: Haukur Holm - RÚV
Smíða þarf sérstakan vélbúnað í Danmörku til að gera við ferjuna Baldur. Það er svokallaður dísuhringur sem tengist túrbínunni og standa vonir til að hann verði tilbúinn í næstu viku. Gunnlaugur Grettisson, framkvæmdastjóri Sæferða, lofar þó engu um hvenær Baldur sé tilbúinn til siglinga á ný.

Ekki er ljóst hver orsök bilunarinnar var og Gunnlaugur segir það óheppilegt. Samsetningin sjálf, þegar búnaðurinn er kominn til landsins, á að ganga hratt fyrir sig. Hann vonast til að hægt verði að sigla eftir viku, fyrir aðra helgi, en það eigi eftir að koma í ljós. 

„Svona hlutir hafa tilhneigingu til að dragast eins og við þekkjum. Við vitum meira strax á mánudaginn næsta,“ segir Gunnlaugur við fréttastofu.

„Upphaflega var verið að vona að það væri miðjan í túrbínunni sem hafði farið og var það sem við keyptum upphaflega og pöntuðum. Svo er eitthvað afleitt tjón sem hefur orðið í leiðinni,“ sagði Gunnlaugur.

Ferjan bilaði á leið til Flateyjar á mánudaginn. Ferjan komst að bryggju í Flatey og lá þar þangað til fiskiskipið Hringur frá Grundarfirði dró hana í Stykkishólm á þriðjudag. Hundrað og fjörutíu farþegar voru um borð í ferjunni þegar hún bilaði. Svartan reyk lagði frá ferjunni, sem var komin langleiðina til Flateyjar þegar skipstjórinn fann að hún var farin að missa afl.