Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

17 aðilar að starfsemi nýsköpunarseturs á Akranesi

02.07.2020 - 20:43
Akraneskaupstaður og Brim hafa stofnað sameiginlegt þróunarfélag um atvinnuuppbyggingu og nýsköpun á Breið á Akranesi. Fyrsta verkefni félagsins er að koma á fót rannsóknar- og nýsköpunarsetri.

Undirbúningur félagsins hefur staðið yfir síðan síðasta haust. Markmið þess er að efla atvinnutækifæri, nýsköpun og skapandi greinar á svæðinu. Þá er einnig gert ráð fyrir nýrri íbúabyggð á Breið, þar sem sveitarfélagið og Brim eiga meirihluta lóða og bygginga. 

Samstarfsverkefni margra 

Kristján Þ. Davíðsson er stjórnarformaður Brims. 

„Mér finnst þetta mjög spennandi verkefni og ég er mjög glaður og stoltur að taka þátt í þessu ásamt öllu þessu góða fólki sem kemur að þessu. Þetta er ekki eins manns tak. Þetta er samstarfsverkefni margra aðila,” segir hann.

Nýta sögufrægt hús undir rannsókna- og nýsköpunarsetur

Rannsókna- og nýsköpunarsetur verður í húsnæði Brims á Breið á Akranesi þar sem fiskvinnsla Haralds Böðvarssonar var upphaflega með starfsemi um árabil. 

„Hér hefur verið starfsemi í yfir hundrað ár á þessum stað. Þetta á langa sögu og sterkar rætur. Nú verður bara spennandi að sjá hvernig næstu hundrað ár líta út og taka þátt í að forma það,” segir Kristján.

Ráðherra hefur miklar væntingar til verkefnisins

Lögð verður áhersla á þróun og hátækni í tengslum við landbúnað og sjávarútveg, snjalltækni, orkufreks iðnaðar, heilbrigðis- og ferðaþjónustu og skapandi greina. Að setrinu koma sautján aðilar - þar á meðal Háskóli Íslands, Landbúnaðarháskólinn, Háskólinn á Bifröst, Faxaflóahafnir og Skaginn 3X. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra er verndari verkefnisins. 

„Ég vænti mikils af þessu samstarfi. Mér finnst þetta áherslur sem skipta máli, þetta held ég að verði eftirsóknarverð störf. Það munu poppa upp áhugaverð fyrirtæki og vonandi mun þetta auka við verðmætasköpun fyrir samfélagið allt þannig ég bind miklar vonir við þetta verkefni,” segir hún.

Í setrinu verður jafnframt samvinnurými þar sem heimamenn og aðrir geta stunda fjarvinnu frá vinnustað. Með því vill félagið styðja við stefnu ríkisstjórnarinnar um störf án staðsetningar á landsbyggðinni.