140 ára færeyskur kútter á Siglufirði

02.07.2020 - 16:48
Mynd með færslu
 Mynd: Ingvar Erllingsson - Ingvar Erlingsson
Færeyski kútterinn Westward Ho kom til Siglufjarðar í byrjun vikunnar. Skipið var byggt í Grimsby árið 1884 og er því nærri 140 ára gamalt.

Kútterinn hefur verið í eigu Færeyinga frá 1895 og gerður út til þorsk- og síldveiða fram til 1964.

Westward Ho er einn þriggja kúttera sem Færeyingar varðveita. Sjálfboðaliðar manna áhafnirnar og sigla skipunum á milli landa og varðveita þannig sögu þeirra og tryggja að verkkunnátta við siglingar og viðhald tréskipa glatist ekki.

Mynd með færslu
 Mynd: Ingvar Erllingsson - Ingvar Erlingsson
Fjöldi fólks hefur skoðað kútterinn á Siglufirði

„Í gömlum tollabókum sem varðveittar eru á Síldarminjasafninu var skipið skráð við síldveiðar á Siglufirði árið 1948 og er því ekki um fyrstu heimsókn þess til Siglufjarðar að ræða. Áhöfn skipsins hefur skipulagt fjögurra daga heimsókn í samvinnu við Síldarminjasafnið og verður almenningi boðið að heimsækja áhöfnina og hljóta leiðsögn um skipið,“ segir meðal annars í umfjöllun á vef Síldarminjsafnsins á Siglufirði.

Heimsókn Westward Ho til Sigufjarðar hefur vakið talsverða athygli og fjöldi fólks skoðað þetta sögufræga skip. Þá bauð áhöfnin leikskólabörnum í siglingu á firðinum.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi