Stuðningur við ríkisstjórnina minnkar

01.07.2020 - 18:00
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Ríflega 57 prósent þjóðarinnar styður ríkisstjórnina, miðað við nýjan Þjóðarpúls Gallup sem birtur var í dag. Það eru um þremur prósentustigum minni stuðningur en í síðasta þjóðarpúlsi.

Litlar breytingar eru á milli mánaða á stuðningi við þá flokka sem bjóða fram til Alþingis. Breytingarnar milli mánaða eru nær allar innan vikmarka.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist enn vinsælastur meðal kjósenda með örlítið minni stuðning en síðast. 24,0 prósent svarenda í þjóðarpúlsinum segjast ætla að greiða honum atkvæði sitt í kosningum. Vinstri græn mundu fá 13,6 prósent atkvæða á landsvísu ef gengið yrði til kosninga nú, það er örlítið minna en síðast. Framsóknarflokkurinn fengi 8,6 prósent, örlítið meira en í síðasta þjóðarpúlsi.

Samanlagt er fylgi stjórnarflokkanna svipað og síðast, um það bil 46 prósent. Samanlagður stuðningur við stjórnarflokkana náði hámarki í byrjun apríl þegar kórónuveirufaraldurinn stóð sem hæst hér á landi. Þá náði stuðningur við ríkisstjórnina sjálfa einnig hámarki í 61 prósenti.

Fylgi flokka í Þjóðarpúlsi Gallup

Þjóðarpúls Gallup 1. júlí 2020 samanborið við síðasta Þjóðarpúls og kosningaúrslit 2017.

Sjálfstæðisfl.
Kosningar
25,3%
3. júní
24,6%
1. júlí
24,0%
Samfylkingin
12,1%
14,4%
14,9%
Vinstri græn
16,9%
14,3%
13,6%
Píratar
9,2%
11,0%
10,7%
Viðreisn
6,7%
9,7%
10,5%
Miðflokkurinn
10,9%
10,4%
10,2%
Framsóknarfl.
10,7%
7,7%
8,6%
Sósialistafl.
0%
3,3%
3,8%
Fl. fólksins
6,9%
4,4%
3,6%

Heimild: Netkönnun sem Gallup gerði dagana 2. til 30. júní 2020. Heildarúrtaksstærð var 10.274 og þátttökuhlutfall var 51,7%. Vikmörk á fylgi við flokka eru 0,1-1,3%. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.

Þegar litið er til stjórnarandstöðuflokkanna þá er Samfylkingin enn þá næst vinsælasta framboðið til Alþingis í þjóðarpúlsinum. Samfylkingin bætir örlítið við sig og mælist með 14,9 prósent stuðning. Píratar, Viðreisn og Miðflokkurinn eru með ríflega 10 prósent stuðning hver.

Sósíalistaflokkurinn fengi 3,8 prósent atkvæða, örlítið meira en Flokkur fólksins sem fengi 3,6 prósent ef kosið yrði nú. Sé miðað við þá þumalputtareglu að framboð nái ekki kjöri nema það fái 5 prósent atkvæða á landsvísu þá fengju þessir tveir flokkar ekki mann kjörinn á Alþingi ef kosið yrði nú.

Þjóðarpúlsinn var gerður dagana 2. til 30. júní 2020. 10.274 voru í úrtakinu og 51,7 prósent tóku afstöðu til spurningarinnar.

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi