Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Óttast um vitann á Gjögurtá í jarðskjálftahrinunni

01.07.2020 - 15:47
Mynd með færslu
 Mynd: Landhelgisgæslan
Óttast var að vitinn á Gjögurtá, austan Eyjafjarðar, hefði orðið fyrir skemmdum í stærstu jarðskjálftum hrinunnar sem staðið hefur síðan 20. júní. Við nánari skoðun virðist vitinn hafa sloppið.

Gjögurtáarviti er fjögurra metra hár, byggður árið 1970, og stendur tæpt á mjóum klettarana. Hann hallar lítilsháttar á stallinum þar sem hann stendur og hefur gert undanfarin ár.

Flogið yfir vitann og hann skoðaður af sjó 

Mikil skriðuföll voru í fjallshlíðinni ofan vitans í upphafi skjálftahrinunnar og í kjölfarið flaug Landhelgisgæslan yfir svæðið og tók myndir. Þá var staðfest að vitinn lýsti, með því að kalla upp nærliggjandi báta, og einnig var hann skoðaður af sjó.

Mynd með færslu
 Mynd: Landhelgisgæslan
Vitinn hallar lítilsháttar og hefur gert lengi

Talið að vitinn sé óskemmdur og virki eðlilega

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir að við mat á þeim myndum sem teknar voru, og samanburð við eldri myndir, sjáist engar breytingar á aðstæðum. „Vegagerðin mun fara í þennan vita til eftirlits síðsumars, eins og venja er til í hinni árlegu sjóferð og þá er betur hægt að segja til um skemmdir. Matið núna er að allt virki eðlilega, og engar skemmdir hafi orðið vegna grjóthruns eða jarðskjálfta.“