Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Íslendingar tæp 95% þeirra sem leita til Stígamóta

Mynd með færslu
 Mynd: - - - Creative Commons Creative Common
Alls leituðu 885 til Stígamóta í fyrra og eru Íslendingar í miklum meirihluta þeirra sem þá leituðu til samtakanna, eða 94,6%. Fram kemur í ársskýrslu samtakanna, sem kynnt var í morgun, að búast megi við að komum vegna nauðgana og kynferðisofbeldis gegn börnum fjölgi í ár, vegna kórónuveirunnar og efnahagsþrenginganna sem fylgt hafa í kjölfarið.

Flestir sem komu til Stígamóta í fyrra tilgreindu nauðgun sem ástæðuna, eða 33,4% og af þeim hópi hafði 24% verið nauðgað af maka; 21,7% leituðu til Stígamóta eftir að hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni; 16,2% voru þolendur sifjaspells; 8,6% höfðu orðið fyrir tilraun til nauðgunar; 7,8% höfðu sætt stafrænu kynferðisofbeldi; 5,2% leituðu til samtakanna vegna kláms; 2,1% vegna vændis; og 5% tilgreindu aðra ástæðu.

Einungis 12,2% sögðust hafa kært ofbeldið til lögreglu.

Sextíu og átta prósent allra leituðu til Stígamóta höfðu ekki náð 18 ára aldri þegar þau voru fyrst beitt ofbeldi. Flest voru á aldrinum 11-17 ára þegar fyrst var brotið gegn þeim, eða 35,9%; 26,1% voru á milli 5-10 ára; og 23,9% voru 18-29 ára.

Einungis 2,2% leita sér hins vegar ekki aðstoðar fyrr en eftir að 18 ára aldri er náð.

Mikill meirihluti þeirra sem leitar sér aðstoðar eru á aldursbilinu 18-29 ára, eða 55,2%; 19,6% eru 30-39 ára; og 11,1% eru 40-49 ára.

Kvíði, depurð og skömm fylgifiskar kynferðisofbeldis

Töluverður munur er á viðbrögðum þeirra sem var nauðgað og þeirra sem urðu fyrir sifjaspelli. Þannig segjast 44,4% þeirra sem var nauðgað að þeir hafi barist á móti með afli eða orðum, en 20,8% þeirra sem urðu fyrir sifjaspelli svöruðu eins. Sextíu komma fjögur prósent þeirra sem var nauðgað sögðust hafa frosið eða fundist líkami sinn lamast, en 36,2 þeirra sem urðu fyrir sifjaspelli sögðust hafa frosið. Þrjátíu og níu komma níu prósent þeirra sem var nauðgað sögðust þá ekkert hafa gert, en 56,2% fórnarlamba sifjaspells svöruðu með sama hætti. Þá sögðust 13,8% þolenda nauðgunar hafa þóst vera sofandi en 20% þolenda sifjaspells.

Þegar horft er til þeirra tilfinninga sem gera vart við sig eftir kynferðisofbeldið segjast 80-90% hafa fundið fyrir kvíða, skömm, lélegri sjálfsmynd og depurð. Mikill meirihluti sagðist líka hafa upplifað sektarkennd, ótta, reiði, tilfinningalegan doða og hafa átt í erfiðleikum með svefn. Einangrun, erfiðleikar með að einbeita sér, erfið tengsl við maka og vini og sjálfsvígshugleiðingar voru einnig afleiðingar sem margir nefndu.