Íslendingar fari í sóttkví og tvisvar í sýnatöku

Tvö smit hafa greinst í konum sem greindust ekki við landamæraskimun. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir vill að Íslendingar og fólk sem býr hér á landi fari í sóttkví í nokkra daga við komuna til landsins og fari svo aftur í sýnatöku nokkrum dögum síðar. Frá og með deginum í dag þarf að greiða fyrir sýnatöku á Keflavíkurflugvelli en farþegar munu ekki þurfa að borga aukalega fyrir seinna sýnið.

Smitin tvö sýni að stoppa þurfi upp í göt

Þórólfur segir að smitin tvö sýni að stoppa þurfi upp í göt við skimunina svo fleiri smitaðir sleppi ekki í gegn. Það hafi verið vitað að fyrstu dagana eftir smit væri sýnatakan óáreiðanleg. Að minnsta kosti tveir einstaklingar hafi nú sloppið í gegn vegna þess. 

 „Og við viljum bara reyna að bæta upp í það og það getum við gert með því að taka sýni strax við komu en setja fólk sem að við vitum að er með mikið tengslanet hér innanlands í sóttkví og prófa það svo aftur,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í viðtali við Þórdísi Arnljótsdóttur fréttakonu í kvöldfréttum í kvöld.   

Smit ætti að koma í ljós eftir fjóra til fimm daga

Þessi nýja sóttkví brestur ekki á strax því breytingarnar þarf að vinna í samráði við þá sem annast sýnatökuna og greininguna, það er Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Íslenska erfðagreiningu. Þórólfur vonast til að það verði innan skamms. Aðspurður hversu lengi fólk þurfi að fara í sóttkví segir hann að smit ætti að koma í ljós á prófi eftir fjóra til fimm daga. 

Enn verið að rekja ný smit

Ekki er komið í ljós hvort fleiri hafi smitast í tengslum við fyrra smitið, sem slapp í gegnum landamæraskimun 17. júní, þegar knattspyrnukona kom til landsins frá Bandaríkjunum. Karlmaður sem starfar í atvinnuvegaráðuneytinu greindist með fyrsta þriðja stigs smitið úr þeirri hópsýkingu. Hann smitaðist af samstarfskonu sem smitast hafði af knattspyrnukonunni.

Hitt smitið sem greint var frá í dag er úr konu sem kom frá Albaníu þann 20. júní síðastliðinn. Ekki er ljóst hve margir þurfa að fara í skimun vegna þess. „Það er verið að fara ofan í tengslanetið hjá þessari manneskju og verið að skoða vel hverja þarf að kalla inn og hverja ekki,“ segir Þórólfur. 

Ekkert þeirra sem nú er með kórónuveirusmit hefur þurft að leggjast inn á spítala og ekkert þeirra er alvarlega veikt.  

Ísland opnar landamæri fyrir fimmtán löndum utan Schengen-svæðisins 

Stjórnvöld munu opna landamæri Íslands fyrir þeim fimmtán löndum sem Evrópusambandsríkin opnuðu fyrir í dag. Bandaríkin eru ekki þeirra á meðal en Bandaríkjamenn hafa verið drjúgur hluti ferðamanna hér. 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segir að það komi til greina að opna landamæri Íslands fyrir fólki frá fleiri löndum en er opið fyrir á Schengen-svæðinu. Öll ESB-ríkin séu samtaka í því að opna ekki fyrir fleirum en þessum fimmtán löndum nú um sinn. Ísland muni fylgja þeim ríkjum til að byrja með.  

Sex greinst með virkt smit

Hálfur mánuður er nú liðinn síðan sýnataka hófst á landamærunum. Átján þúsund hafa komið til landsins um Keflavíkurflugvöll síðan þá, átta hundruð með skipum og ellefu hundruð með einkaflugvélum. Samtals hafa sýni verið tekin úr 16.000 manns. Tuttugu hafa greinst með gamalt smit og því ekki verið smitandi. Sex hafa greinst með virkt smit og tvær þeirra greindust með neikvætt sýni við komuna til landsins en greindust síðar smitaðar.

Sýnataka á landamærunum gengið vel

Jórlaug Heimisdóttir, verkefnastjóri landamæraskimunar, segir í viðtali við Þórdísi Arnljótsdóttur í kvöldfréttum að sýnatakan hafi gengið mjög vel. „Þegar allir leggjast saman á eitt þá bara gengur þetta upp“. 

Mikilvægt sé að fólk forskrái sig áður en það kemur til landsins. Þá fái það strikamerki sem það þarf til að fara í sýnatöku. Mikilvægt sé að fólk átti sig á því að hægt sé að greiða með kreditkorti á forskráningarkerfinu, og þá losni það við að stoppa í flugstöðinni til að greiða. Aðspurð segir hún flesta hafa greitt fyrirfram í dag.

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi