Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Forlagið selur Storytel AB 70% hlut

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd

Forlagið selur Storytel AB 70% hlut

01.07.2020 - 10:27

Höfundar

Sænska fyrirtækið, Storytel AB, móðurfélag Storytel á Íslandi, hefur keypt 70% hlut í Forlaginu, stærstu bókaútgáfu landsins. Samið var um að gefa ekki upp kaupverðið, sem verður staðgreitt.

Seljandinn, bókmenntafélagið Mál og menning, fer áfram með 30% hlut í Forlaginu. Samningurinn er gerður með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins. Velta Forlagsins var um 8 milljónir evra árið 2019 eða 1.100 milljónir króna. Storytel er streymisveita og útgefandi raf- og hljóðbóka í Norður-Evrópu. 

Forlagið starfar áfram sem sjálfstætt bókaforlag, aðskilið streymisveitu Storytel á Íslandi. Forlagið bætist í hóp þriggja annarra norrænna útgáfufélaga í eigu Storytel AB, Norstedts Förlagsgrupp í Svíþjóð, People’s Press í Danmörku og Gummerus Publishers í Finnlandi.

„Kaupin munu styrkja rekstrargrunn Forlagsins og tryggja forystu í stafrænni þróun til framtíðar. Þetta skref rammar einnig vel inn framtíðarsýn félagsins sem snýr að því að gefa út bestu verk íslenskra bókmennta og gera þau aðgengileg öllum lesendum, hvaðan og hvernig sem þeir vilja njóta þeirra,“ segir Egill Örn Jóhannsson framkvæmdastjóri Forlagsins í fréttatilkynningu.

Forlagið og Storytel boða til blaðamannafundar klukkan eitt í dag til að skýra betur frá sölunni og svara spurningum. Þar verða meðal annarra Rustan Panday, stjórnarformaður Storytel Group, og Otto Sjöberg, stjórnarformaður útgáfufélaga í eigu Storytel á Norðurlöndunum.

Mynd með færslu
Standandi: Kristófer Jónasson frá LOGOS, Gunnar Sturluson frá LOGOS, Stefán Hjörleifsson, landsstjóri Storytel á Íslandi og Árni Einarsson, stjórnarmaður í Mál og menningu og Forlaginu. Sitjandi: Þórhildur Garðarsdóttir, fjármálastjóri Forlagsins, Röstan Panday, stjórnarformaður Storytel AB, Egill Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Forlagsins, Soffía Eydís Björgvinsdóttir frá KPMG og Halldór Guðmundsson, stjórnarformaður Máls og menningar og Forlagsins. Mynd: Forlagið

Standandi: Kristófer Jónasson frá LOGOS, Gunnar Sturluson frá LOGOS, Stefán Hjörleifsson, landsstjóri Storytel á Íslandi og Árni Einarsson,  stjórnarmaður í Máli og menningu og Forlaginu.

Sitjandi: Þórhildur Garðarsdóttir, fjármálastjóri Forlagsins, Röstan Panday, stjórnarformaður Storytel AB, Egill Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Forlagsins, Soffía Eydís Björgvinsdóttir frá KPMG og Halldór Guðmundsson, stjórnarformaður Máls og menningar og Forlagsins.

 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Hljóðbókaveita opnar með látum á Íslandi

Bókmenntir

Rithöfundar ósáttir við Storytel

Menningarefni

Storytel kaupir elsta bókaforlag Svíþjóðar