Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Fána Mississippi verður breytt

01.07.2020 - 04:11
epa08519199 The flag of the state of Mississippi flies against a setting sun over the state’s welcome center near the Alabama state line in Moss Point, Mississippi, USA, 30 June 2020. Mississippi Republican Gov. Tate Reeves on 30 June signed the bill retiring the last state flag in the United States carrying Confederate battle emblem. The legislation passed both chambers of the Legislature on 28 June.  EPA-EFE/DAN ANDERSON
 Mynd: EPA-EFE - EPA
„Þetta er ekki pólitísk stund, þetta er hátíðarstund þar sem Mississippi-fjölskyldan kemur saman, nær sáttum við fortíðina og lítur saman fram veginn," sagði Tate Reeves, ríkisstjóri Mississippi eftir að hann undirritaði lög um breytingu fána ríkisins. Fáninn er sá eini í ríkjum Bandaríkjanna sem enn skartar flaggi Suðurríkjasambandsins að hluta. 

Yfirgnæfandi meirihluti þingmanna beggja deilda ríkisþings Mississippi samþykkti að fjarlægja Suðurríkjasambandsflaggið af fánanum. Nú tekur nefnd til starfa sem velur nýjan fána. Mississippi-búar fá svo að velja sér nýjan fána samhliða forsetakosningunum í nóvember. Verði nýrri hönnun hafnað verður ríkið fánalaust þar til nýr verður valinn af íbúum.

Tákn haturs og fordóma

Minnismerki um Suðurríkjasambandið eru meðal þess sem mótmælendur í Bandaríkjunum vilja að verði fjarlægð. Sambandið vildi segja sig úr lögum við Bandaríkin og leyfa áfram þrælahald um miðja nítjándu öld. Síðan þá líta margir á fána Suðurríkjasambandsins sem tákn um rasisma og hatur í garð svartra. Bandaríska háskólaíþróttasambandið þrýsti á Mississippi fyrir nokkrum vikum, með því að segja að engir viðburðir á þess vegum yrðu í ríkinu fyrr en fánanum yrði breytt. Þá samþykkti bandaríska akstursíþróttasambandið NASCAR að banna fána Suðurríkjasambandsins á viðburðum sínum, eftir þrýsting eina svarta ökumannsins í greininni.

Kynþáttafordómum og ofbeldi lögreglumanna í garð svartra Bandaríkjamanna hefur verið mótmælt víða um Bandaríkin síðustu vikur. Mótmælin hófust eftir að hvítur lögreglumaður drap George Floyd í Minneapolis í maí, með því að þrýsta hnénu að hálsi hans í um átta mínútur.