
Tvö þeirra sem fórust í eldsvoðanum voru í Eflingu
Efling gagnrýnir harðlega aðbúnað fólksins og segir að þau hafi „lent í gildru einstaklings sem leigði þeim hættulegt húsnæði í óboðlegu umhverfi.“ Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að samtökin hafi í samvinnu við Alþýðusambandið náð vel utan um starfsmannaleigur.
„Afstaða Samtaka atvinnulífsins og afstaða mín er alveg kristaltær: Það á að virða öll réttindi og skyldur á vinnumarkaði og þeir atvinnurekendur eiga ekkert skjólshús innan Samtaka atvinnulífsins. Þannig er það og hefur það alltaf verið og þannig mun það verða til framtíðar. Hvað varðar þennan húsnæðisvinkil sem þið bryddið aðeins upp á, þá er það svo að húsnæði er á ábyrgð eigenda þess hverju sinni og frá því verður ekkert kvikað. Það eru fjölda margir aðilar sem þar koma að. Afstaða Samtaka atvinnulífsins er ósköp skýr: Öllum atvinnurekendum ber að tryggja öryggi, ekki bara viðskiptavini sína, heldur starfsmanna sinna. Þeir sem ekki geta gert það, við skjótum ekki skjólshúsi yfir þá, við verjum þá ekki og mín skoðun er sú að þeir eiga að huga að því að finna sér eitthvað annað í en atvinnurekstur,“ sagði Halldór Benjamín í Morgunútvarpi Rásar 2.
Þá sagði Halldór að eftirlitsaðilar ættu að taka á málinu. „Ég einfaldlega trúi því að árið 2020 eigum við að gera þá kröfu til sjálfra okkar og við eigum að gera þá kröfu til samfélagsins að ef það er pottur brotinn á þessu sviði einhvers staðar, þá verði eftirlitsaðilar hverjir svo sem þeir eru, hvort þeir eru á vegum sveitarfélags eða ríkis, að girða sig í brók og gera gangskör í því að uppræta starfsemi af þessum toga. Ég tel að það séu allar lagaheimildir til staðar. Þetta snýst eflaust um forgangsröðun,“ segir Halldór.