Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Þátttaka fólks af erlendum uppruna verður efld

30.06.2020 - 15:17
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Alþingi samþykkti í nótt þingsályktunartillögu um mótun stefnu sem eflir fólk af erlendum uppruna til þátttöku í samfélaginu. Fimmtíu þingmenn greiddu atkvæði með tillögunni en sex þingmenn Miðflokksins sátu hjá. Markmið tillögunnar er að mótuð verði stefna fyrir einstaklinga og fjölskyldur af erlendum uppruna með það að markmiði að auka gagnkvæman skilning og þátttöku á öllum sviðum samfélagsins.

Guðjón S. Brjánsson, þingmaður Samfylkingarinnar, lagði tillöguna fram á Alþingi. Bent er á að innflytjendum hafi fjölgað úr því að vera átta prósent landsmanna 2012 í rúm fjórtán prósent nú. Brýnt sé að huga að velferð þeirra og þá skipti aðlögun og þátttaka í samfélaginu lykilmáli.

Þá segir í tillögunni: „Mikilvægt er að huga að velferð þessa vaxandi hóps. Aðlögun og þátttaka í samfélaginu er lykilþáttur í velferð innflytjenda sem best verður tryggð með greiðum aðgangi að öllum þáttum samfélagsins. Þá er mikilvægt að bæta stofnanaumgjörð innflytjendamála svo að hlúa megi betur að málaflokknum.“