Segi að ég eigi inni hamborgara hjá honum

Mynd: RÚV / RÚV

Segi að ég eigi inni hamborgara hjá honum

30.06.2020 - 19:45
Hinn 11 ára Jóel Freyr Ingason sló heldur betur í gegn á Víkingsvelli þegar Víkingur frá Reykjavík og FH áttust við í Pepsi Max-deild karla í fótbolta í gærkvöld. Jóel, sem var boltasækir á leiknum, átti óvæntan þátt í þriðja marki Víkings og segir fótboltakappinn ungi að hann finni fyrir athyglinni eftir leikinn.

Víkingur leiddi 2-0 á lokamínútu fyrri hálfleiks í gær þegar brotið var á Óttari Magnúsi Karlssyni rétt utan vítateigs við endalínu á vallarhelmingi FH. Boltinn rúllaði út á miðjan vallarhelming, að hliðarlínu. Þar var Jóel fljótur að átta sig, og sparkaði boltanum til Óttars, sem lagði hann úr þröngu færi, beint úr aukaspyrnunni í autt mark FH á meðan leikmenn Hafnarfjarðarliðsins voru uppteknir við að kvarta undan aukaspyrnudómnum.

Jóel hefur sjálfur æft fótbolta í mörg ár og segir hann að þetta hafi verið í þriðja eða fjórða sinn sem hann er boltasækir á Víkingsvelli. Þeir Óttar Magnús eru báðir örvfættir og náðu greinilega vel saman í gær.

„Ég þarf að finna út hver þetta er og hrósa honum fyrir þetta, þetta var mjög vel gert hjá honum.“ segir Óttar Magnús um Jóel en Óttar skoraði þrennu í 4-1 sigri Víkinga í leiknum.

„Ég sá boltann koma að mér og ég verð eiginlega bara mest að þakka Óttari fyrir að hugsa fljótt með skotið í markið.“ segir boltasækirinn Jóel. En hvað sagði Óttar við hann?

„Hann sagði ekki mikið en eftir eftir leikinn sagði hann bara: „djöfulsins meistari!“.“

Krefur Arnar um borgarann

Óttar er ekki sá eini sem hrósaði Jóel fyrir stoðsendinguna. Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, hrósaði bæði Jóel og Óttari fyrir markið og sagði þann stutta eiga von á hamborgara frá sér fyrir.

 

„Mér fannst þetta bara geggjað. Boltastrákurinn var mjög fljótur að hugsa, sendir á Óttar sem sér að markið er autt og sendir hann í markið. Ég myndi kvarta sem FH-ingur en frá mér séð var þetta hrikalega flott mark og vel að verki staðið - bæði hjá boltadrengnum og Óttari. Hann fær einhvern hamborgara hjá okkur,“ sagði Arnar við RÚV í gær.

Aðspurður um loforðið segir Jóel: „Næst þegar ég sé hann þá segi ég að ég á hamborgara hjá honum.“

Viðtal við Jóel má sjá að ofan.

Tengdar fréttir

Fótbolti

Boltastrákurinn fær borgara