
Öryggislög í Hong Kong taka gildi 1. júlí
Mikil mótmæli í Hong Kong í fyrra urðu kveikjan að þessari lagasetningu. Óttast er að með lögunum verði réttarfarslegu sjálfstæði héraðsins kollvarpað auk þess sem margs konar réttindi sem ekki þekkjast í Kína verða afnumin.
Hörð viðbrögð urðu í Hong Kong og á alþjóðavettvangi allt frá því að kínversk stjórnvöld tilkynntu fyrirætlanir sínar í maí. Voru þau hvött til að endurskoða ákvörðun sína.
Kínastjórn sögðu að lögin væru óhjákvæmileg svo koma mætti í veg fyrir hryðjuverkastarfsemi og glæpsamlegt athæfi af ýmsu tagi í Hong kong.
Kínversk stjórnvöld hafa ekki staðfest að lögin hafi verið samþykkt né hefur orðalag þeirra verið gert opinbert en nokkur atriði í þeim hafa lekið út.
Fullyrt er að fyrst og fremst verði horft til afbrota fáeinna einstaklinga, lögunum verði ekki beitt til að handtaka þau sem gagnrýni Kína, lögin hafi ekki áhrif á pólítískt frelsi og verði til þess að traust á viðskiptalífi Hong Kong kvikni á ný.
Öryggislögin taka gildi og verða færð inn grundvallarlög Hong Kong 1. júlí þegar 23 ár verða liðin frá því að 156 ára yfirráðum Breta yfir héraðinu lauk og Kínverjar tóku við völdum. Bretar tóku þá loforð af Kínverjum um að frelsi Hong Kong-búa yrði tryggt í stjórnlögum Kína með hugmyndinni um eitt ríki, tvö kerfi.
Helstu aðgerðarsinnar í héraðinu, sem hafa staðið í fylkingarbrjósti lýðræðissamtakanna Demosisto, segjast munu yfirgefa samtökin eftir að lögin taka gildi.
Sérstök öryggis- og eftirlitsskrifstofa verður sett á laggirnar í Hong Kong til að framfylgja lögunum. Stjórnvöld þar bera ábyrgð á að það verði gert. Á hinn bóginn öðlast stjórnvöld í Peking völd til að taka fram fyrir hendur yfirvalda í héraðinu þegar þurfa þykir.