Í liði umferðarinnar eftir fyrsta byrjunarliðsleikinn

Mynd með færslu
 Mynd: Norrköping

Í liði umferðarinnar eftir fyrsta byrjunarliðsleikinn

30.06.2020 - 16:15
Ísak Bergmann Jóhannesson, 17 ára Skagamaður sem leikur með Norrköping í Svíþjóð, var valinn í lið umferðarinnar í sænsku úrvalsdeildinni í dag. Valið kemur eftir frammistöðu hans í fyrsta byrjunarliðsleik sínum fyrir Norrköping.

Norrköping lék sinn fjórða leik í deildinni við Östersund á laugardag en áður hafði liðið unnið fyrstu þrjá leiki sína. Ísak hafði verið ónotaður varamaður í fyrstu umferðinni en komið inn af bekknum í síðari leikjunum tveimur.

Ísak fékk í fyrsta sinn tækifæri í byrjunarliði Norrköping er liðið sótti Östersund heim á laugardag. Norrköping vann þar 4-2 sigur eftir að hafa lent 2-1 undir en staðan var 2-2 á 90. mínútu áður en tvö mörk gestanna tryggðu þeim sigurinn. Ísak lagði upp bæði annað og þriðja mark Norrköping og veitir framganga hans í leiknum honum sæti í liði umferðarinnar.

Ísak er sonur fyrrum landsliðs- og atvinnumannsins Jóhannes Karls Guðjónssonar, sem er í dag þjálfari ÍA í Pepsi-Max deild karla. Hann spilaði einn leik fyrir ÍA í næst efstu deild sumarið 2018 áður en hann var seldur til Norrköping það ár. Hann spilaði aðeins einn deildarleik, sem varamaður, fyrir sænska félagið á síðustu leiktíð en virðist ætla að verða í stærra hlutverki í ár.

Norrköping er eftir sigurinn með tólf stig, fullt hús stiga, og er með fimm stiga forskot á toppnum þrátt fyrir að aðeins fjórir leikir séu búnir af sænsku deildinni.