Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Herða reglur um heimsóknir á hjúkrunarheimili

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þeir sem hafa verið erlendis eiga ekki að heimsækja íbúa á hjúkrunarheimilum aldraðra eða heimilum fatlaðs fólks í Reykjavík fyrstu 14 dagana frá heimkomu. Þetta eru tilmæli neyðarstjórnar velferðarsviðs Reykjavíkurborgar til að hamla útbreiðslu COVID-19. Staðan verður metin að nýju 13. júlí.

Þá eiga þeir sem hafa umgengist smitaða og fólk með kvef eða flensulík einkenni ekki að fara í slíkar heimsóknir.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. Tilmælin eru gefin út vegna innanlandssmita og mögulegrar hópsýkingar.

Þar segir að tilmælin nái einnig til þeirra sem hafi farið í sýnatöku við komuna til landsins sem ekki hafi reynst jákvæð.  Starfsfólk á þessum stöðum er beðið um að fara eftir sömu tilmælum. 

Neyðarstjórn velferðarsviðsins kom saman í gær að loknum fundi neyðarstjórnar Reykjavíkurborgar.