Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

HA samþykkir allt að 400 fleiri umsóknir

Mynd með færslu
 Mynd: Eva Björk Benediktsdóttir - RÚV
Háskólinn á Akureyri ætlar að fjölga samþykktum umsóknum um nám við skólann úr rúmlega 1.000 í allt að 1.400 fyrir komandi skólaár. Þetta er gert vegna stöðunnar í íslensku samfélagi og ákvörðunar stjórnvalda um að auka fjármagn til háskólanna vegna aukinnar aðsóknar.

Í tilkynningu frá skólanum segir að þarna sé lagt traust á ríkisstjórn og menntamálaráðuneyti um að standa við yfirlýsinguna sem gefin var út 22. júní og að Háskólinn á Akureyri fái jafnframt leiðréttingu á þeim nemendaígildum sem háskólinn hefur í dag umfram greiddan nemendaígildafjölda frá stjórnvöldum.

„Með því að fjölga samþykktum umsóknum er háskólinn að koma til móts við þörf í þeim faggreinum sem hafa verið undir miklu álagi á síðustu misserum. Þeim óvenjulegu aðstæðum er mætt sem nú eru uppi vegna heimsfaraldurs og þrenginga á atvinnumarkaði. Þá er aukið við námsframboð sem nýtist á sem flestum sviðum samfélagsins, líkt og í menntunarfræðum, hjúkrunarfræði, iðjuþjálfunarfræði, lögreglufræðum, líftækni, auðlindafræðum, viðskiptafræði og lögfræði,“ segir í tilkynningunni.

Þriðja árið í röð bárust Háskólanum á Akureyri yfir 2.000 umsóknir, en út frá fjárhagsstöðu skólans hafði háskólaráð áður tekið ákvörðun um að bjóða aðeins rúmlega 1.000 umsækjendum námspláss á haustmisseri. Við aukinn fjölda nemenda þurfi að fjölga starfsfólki og auknar fjárveitingar til háskólanna séu því grundvallarforsenda þess að unnt verði að fjölga samþykktum umsóknum að þessu sinni.