Forn viskíflaska heimt úr hafi á Seyðisfirði

30.06.2020 - 10:19
Ævagömul óopnuð viskíflaska veiddist á bryggjunni á Seyðisfirði þakin hrúðurkörlum og þara. Hönnun flöskunnar bendir til að hún sé yfir hundrað ára gömul, en innihaldið er görótt og ódrykkjarhæft.

Hreinn Elí Davíðsson býr á Egilsstöðum en var að dorga á Seyðisfirði á dögunum þegar óvæntur fengur settist á öngulinn. Þessi gamla bokka sem einhver hefur þurft að horfa á eftir í sjóinn. „Ég var bara að veiða með félaga mínum og bróður mínum og ég helt að ég væri búinn að festa mig en síðan rétti ég félaga mínum bara stöngina og byrjaði að draga línuna inn með höndunum. Ég fann að hún var bara að koma inn hægt og hægt og síðan dró ég upp og sá að það var flaska þarna umkringd þara og hrúðurkörlum. Við tókum hana bara upp og ég þreif aðeins af henni þannig að ég gat lesið á flöskuna,“ segir Hreinn.

Sjór komst í veigarnar í gegnum tappann

Korktappinn var innsiglaður með vaxi, flaskan óátekin og ljóst að vínmissirinn hefur verið sár á sínum tíma. Viskíið er skoskt, af gerðinni Glengoyne en fyrirtækið hóf starfsemi árið 1833. Glöggir menn bentu Hreini á að hönnun flöskunnar, nánar tiltekið hálsinn og stúturinn, benti til að hún væri yfir hundrað ára gömul. „Ég er búinn að hafa samband við fyrirtækið og er búinn að fara inn á nokkrar síður á Facebook, einhverjar viskísíður og reyna að finna út úr því hvað hún er gömul. Það er í rauninni erfitt að finna hversu gömul hún er akkúrat en hún gæti alveg verið yfir hundrað ára. Það er komið smá sjóvatn í gegn, búið að síast í gegnum korktappann þannig að ég held að hún sé ekki drykkjarhæf.“

Hreinn hefur ekki ákveðið hvort hann reynir að fá einhverja aura fyrir flöskuna eða notar hana sjálfur sem hilluskraut.

Fjallað var um málið í fréttum kl. 22 á RÚV í gærkvöld. Horfa á frétt

Einnig var fjallað um flöskufundinn á vef Austurfréttar

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi