Fór í sálarmaraþon í gegnum sellósvítur Bachs

Mynd: Karl Sigtryggsson / RÚV

Fór í sálarmaraþon í gegnum sellósvítur Bachs

30.06.2020 - 12:07

Höfundar

Sæunn Þorsteinsdóttir sellóleikari flutti sex svítur Johanns Sebastians Bachs í sex kirkjum á norðanverðum Vestfjörðum, allt saman á innan við hálfum sólarhring. „Þetta er eins og sálarmaraþon að fara í gegnum þetta.“

Þegar Sæunn Þorsteinsdóttir kom til landsins fyrir skömmu fór hún beint í tveggja vikna sóttkví og nýtti tímann til að undirbúa sig fyrir Jónsmessutónleika þar sem hún lék allar sex sellósvítur Johanns Sebastians Bachs. Sæunn hefur skipað sér í fremstu röð íslenskra sellóleikara. Hún kemur fram á tónleikum víða um heim og kennir meðal annars við Washington-háskólann í Seattle. 

Sæunn kom til Íslands frá New York, þar sem hún býr. „Ástandið í New York var frekar skrýtið. Svona stórborg sem stoppar í rauninni. Það er alltaf gott að koma heim en þetta var mjög skrýtið ferðalag,“ segir hún í viðtali í Sumarlandanum á RÚV. Sæunn segist öllu vön og það hafi í raun verið mjög gott að fá næði til að undirbúa tónleikana.

Sæunn Þorsteinsdóttir sellóleikari flutti sex svítur Johanns Sebastians Bachs í sex kirkjum á norðanveruðm vestfjörðum, allt saman á innan við hálfum sólarhring. „Þetta er eins og sálarmaraþon að fara í gegnum þetta.“
 Mynd: Karl Sigtryggsson - RÚV
Sæunn flutti allar sex sellósvítur Bachs í jafnmörgum kirkjum.

Þegar Sæunn losnaði úr sóttkvínni fór hún beint vestur á firði með sellóið og lék Bach-svíturnar í sex kirkjum, eina í hverri. Fyrstu tónleikarnir voru í Þingeyrarkirkju klukkan eitt á sumarsólstöðum og þeir síðustu á Stað í Súgandafirði klukkan ellefu.

„Þetta var verkefni sem ég var frekar spennt fyrir af því það eru 300 ár síðan Bach-svíturnar voru skrifaðar. Þannig að ég er búinn að vera að spila þær ein og sér í allavega 20 ár,“ segir hún. „Þannig að þetta er búið að vera verkefni sem mig hefur langað að gera og mér fannst þetta gott ár til að prófa að gera þær allar. En svo þegar COVID kom upp var líka frábært að geta spilað þetta ein og geta æft sjálf ein í sóttkví. Þetta var kannski verkefni sem var gott fyrir svona tíma.“

Sæunn segir að tónleikarnir hafi reynt á en verkefnið hafi um leið verið skemmtilegt og gefandi. „Þetta er eins og sálarmaraþon að fara í gegnum þetta.“ Hún segir að tímarnir sem við lifum nú séu afar erfiðir listafólki. „Það er erfitt að sjá hvenær þetta fer aftur af stað. Við reynum að gera það sem við getum, tónleikar á netinu og eitthvað svona, en það hefur náttúrulega verið svakalegt að vera listamaður á þessum tíma.“

Tengdar fréttir

Klassísk tónlist

Mikilvægt að spyrja tónlistina spurninga

Klassísk tónlist

Tungumálið í tónunum

Klassísk tónlist

Mikilvægt að skynja það ósagða