Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Enginn núningur milli rappsins og poppsins á Íslandi

Mynd: RÚV / Lestarklefinn

Enginn núningur milli rappsins og poppsins á Íslandi

30.06.2020 - 16:07

Höfundar

„Ég held það sé ekki hægt að segja hvað kúl er, það er auðveldara að tala um það með neikvæðum formerkjum, hvað er ekki kúl,“ segir Atli Bollason menningarrýnir í nýjum útvarpsþætti um samband meginstraumsins og jaðarmenningar.

Atli heldur áfram og segir kúlið afar breytilegt og í stöðugu flæði og þess vegna sé ekki hægt að festa hendur á því. „Ef að þú gætir gert það þá væri hægt að afrita. En það sem er kúl er ekki hægt að afrita. Það bara blossar einhvers staðar upp og er svo kannski horfið og birtist annars staðar í annarri mynd.“ Það sem er kúl í dag geti orðið glatað á morgun og öfugt. Atli telur þannig að kúlið sé í stöðugu díalektísku hlutverki gegn meginstraumnum. „Afl sem er í mótstöðu við normið.“

Rithöfundurinn Fríða Ísberg sem hefur unnið mikið með hugmyndina um kúl í ljóðum telur að fyrirbærinu sé hægt að skipta í tvennt; gervikúl og alvöru kúl. „Það er erfitt að greina á milli. En það er þessi tilfinning sem maður fær í beinin, gervikúlið er eins konar hreyfing milli hroka og óöryggis. Maður flakkar þarna fram og til baka,“ segir Fríða. „Það kúl er vörn fyrir fólki sem treystir ekki aðstæðum eða sjálfum sér. Það er lockdown, brynja, gefa ekkert upp, koma ekki upp um sjálfan sig.“ Alvöru kúlið sé hins vegar það sem hitt er að elta, en sé þó í andstöðu við. „Alvöru kúlið leggur eitthvað að veði. Ég er ekki bara að tala um það sem mér finnst kúl, heldur þegar maður skynjar að manneskjan veðjar á sjálfan sig og stendur og fellur með því. Maður finnur fyrir því að þessar manneskjur hvíla í sjálfum sér. Það er ekki þetta rafmagn, titringur, sem er þetta óöryggi, hroki og vantraust.“

Hugmyndir Atla um fyrirbærið mætti segja að séu annars eðlis. „Mér finnst fólk ekki reyna að vera nógu kúl, í einhverjum skilningi. Manni er kennt að maður eigi ekki að rembast við að vera kúl. Það er svo sem alveg rétt. En kúl á samt að vera markmið,“ segir Atli sem finnst meginstraumurinn hafa gleypt flest það sem áður var kúl. „Ágætisdæmi er þetta íslenska rapp. Það er enginn núningur milli þess og poppsins, sem er allt annað en í fyrri íslensku rappbylgjunni.“ Fríðu finnst hugmyndin um breytilegt kúl og tískustrauma sé meira í ætt við gervi-kúlið. „Fólk á hlaupabretti að eltast við gulrót sem það getur aldrei náð. Auðvitað tengist það því að kúlið er að reyna að sannfæra okkur. En að sama skapi vitum við að ákveðnar manneskju eru alltaf kúl. Mér finnst þetta unglingsleg hugsun um kúl, að það sé eins og tíska.“

Atli segir að hann og fólk í hans kreðsu hafi stöðugt reynt að vera öðru vísi en meginstraumurinn. „Hvernig getum við greint okkur frá því. Því fylgdi einhver tilgangur. Hún var ekki keyrð áfram af hatri, heldur kannski frekar díalektík, að búa til eitthvað nýtt. Að sumu leyti er það andstaðan við hygge, eitthvað kósí dæmi. Það verður að vera einhver hætta í því.“ Útópía sé því alls ekki það eftirsóknarvert eða áhugavert ástand því það sé endastöð og kyrrstaða. „Ekkert að gerast þar. Engir straumar því það eru engin háþrýsti- eða lágþrýstisvæði. Það er bara staðið loft. Það er búið að setja allt í Excel-kassana og læsa þeim, þú getur ekki breytt neinum gildum. Það er ógeðslega leiðinlegt, að miklu leyti snýst menning um átök, spennuna á milli tveggja póla, tvö segulstál sem geta ekki komið saman. Það er aflið sem kúl á að vera að búa til. Þetta sem er á milli segulstálanna.“

Tómas Ævar Ólafsson ræddi við Atla Bollason og Fríðu Ísberg í fyrsta þætti Miðjunnar og jaðarins. Þátturinn er á Rás 1 á mánudögum kl. 17.03 í sumar og hægt er að hlusta á fyrsta þáttinn í heild sinni í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Bið alla dægurlagamenningu afsökunar“

Sjónvarp

Það er kúl að hlýða

Pistlar

Hvað er ekki kúl? 

Menningarefni

Hvert fór kúlið?