Elín Metta allt í öllu í fjórða sigri Vals

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Elín Metta allt í öllu í fjórða sigri Vals

30.06.2020 - 20:00
Valur vann 3-1 sigur á ÍBV í Vestmannaeyjum í eina leik kvöldsins í Pepsi Max-deild kvenna í fótbolta. Liðið er með fullt hús stiga eftir fjórar umferðir.

Leikur liðanna er sá eini sem fór fram í deildinni í dag en tveir aðrir leikir áttu að vera á dagskrá. Eftir að COVID-19 smit komu upp í herbúðum Breiðabliks og Fylkis var leikjum þeirra liða sem áttu að vera á dagskrá í kvöld aftur á móti frestað. Breiðablik átti að mæta Þrótti R. í Laugardal og Fylkiskonur áttu að spila við Þór/KA á Akureyri.

Smitin sem upp komu höfðu áhrif á leikmannahóp Vals en þær Lillý Rut Hlynsdóttir og Karítas Guðrún Sigurðardóttir ferðuðust ekki með liðinu til Eyja þar sem þær eru í sóttkví eftir að hafa verið í nánd við einn leikmannana sem smitaður er.

Það virtist þó lítil áhrif hafa á Valsliðið sem komst í forystu strax á fjórðu mínútu með marki Elínar Mettu Jensen. Olga Sevcova fékk kjörið tækifæri til að jafna leikinn fyrir ÍBV skömmu fyrir leikhlé en skaut beint á Söndru Sigurðardóttur í marki Vals svo 1-0 stóð í leikhléi.

Valskonur refsuðu fyrir klúðrið og aftur skoraði Elín Metta skömmu eftir að flautað var til leiks. Aðeins þrjár mínútur voru liðnar af síðari hálfleik þegar hún afgreiddi vel eftir sendingu Eyjakonunnar Elísu Viðarsdóttur.

Grace Hancock svaraði með marki fyrir Eyjakonur átta mínútum síðar þegar hún skoraði eftir aukaspyrnu Olgu Sevcovu. Elín Metta lagði hins vegar upp mark fyrir Bergdísi Fanneyju Einarsdóttur og 65. mínútu og þar við sat.

Valur vann leikinn 3-1 og er því á toppi deildarinnar með tólf stig en Breiðablik kemur næst með níu stig. Blikakonur munu ekki spila næstu tvær vikurnar þar sem liðið er í sóttkví og geta Valskonur á meðan sett pressu á Kópavogsliðið að ná úrslitum.