Annað sumar ástarinnar og útópía reifsins

Mynd: Óli Dóri / .

Annað sumar ástarinnar og útópía reifsins

30.06.2020 - 16:31

Höfundar

Strangar reglur um opnunartíma bara og skemmtistaða hafa leitt til upprisu rúmlega 30 ára gamallar partíhefðar, en reif-veislur skjóta nú aftur upp kollinum undir berum himni.

Þrátt fyrir að eitthvað hafi rofað til í skemmtanalífi Íslendinga eftir að slakað var á samkomubanni er ekki laust við að það liggi eitthvað í loftinu. Að barir og skemmtistaðir skelli í lás klukkan 11 á kvöldin, líka um helgar, er hreinlega allt allt of snemmt. Enda eru götur fullar af fólki og eftirpartí í öðru hverju húsi miðsvæðis um miðnætti um helgar. En þetta hefur meðal annars leitt til endurvakningar á rúmlega þrjátíu ára menningarfyrirbæri, reifinu, en slík hafa nýlega verið haldin undir berum himni á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess, miklu lengur en lögregla og sóttvarnalæknir telja hæfilegt.

En hvað er reif eiginlega? Í stuttu máli mætti segja að það sé eins konar danspartí þar sem fjöldi fólks kemur saman og skakar sér við rafræna danstónlist framreidda af plötusnúði langt fram á nótt eða næsta dag. Það getur verið úti eða inni en sérstaklega í upphafi reifsins, í Bretlandi, var þetta einnig hugmyndafræðileg hreyfing og tengdist andstöðu við yfirvald. Reif voru iðulega haldin án leyfis úti á miðjum ökrum eða í ósamþykktu iðnaðarhúsnæði.

Um miðjan 9. áratuginn varð hústónlistin til í Chicago og undirgeiri hennar sýruhúsið, en það sem helst einkenndi hana var gutlið í Roland Tb-303 bassasynþanum, hljóð sem var einhvern veginn síkadelískt og subbulegt, líkt og í vökvakenndu formi sem sullast yfir bassatrommutaktinn í fjórum fjórðu.

Sýruhústónlistin barst yfir Atlantshafið til partíeyjunnar Ibiza þar sem Bretar í sumarfríum kynntust henni og tóku með sér í hjarta heimsveldisins. Tónlistin var spiluð á klúbbum eins og Shoom, Future og Hacienda á sama tíma og vímuefnið alsæla, eða e-töflur, var að ryðja sér til rúms og varð fljótt vinsælt. Ekki síst þótti efnið auka og bæta skynjun þegar dansað var við hústónlist.

Um svipað leyti var byrjað að skipuleggja ólögleg partí til að þurfa ekki að hafa áhyggjur af opnunartíma og afskiptum yfirvalda. Þau fóru fram utandyra eða í yfirgefnum vöruskemmum og fregnir af staðsetningu fóru manna á milli í klúbbum og þar að auki í gegnum símboða og frumstæða einblöðunga, en guli broskallinn varð fljótt að einkennistákni hreyfingarinnar. Þessar reifveislur sprungu fljótt út í vinsældum og talað var um árin 1988-1989, sem The Second Summer of Love, Annað sumar ástarinnar, en hið fyrsta var að sjálfsögðu í San Fransisco 1967.

Þetta var breið ungmennahreyfing og andspyrnumenning, counter culture, sem neitaði að láta yfirvöld ákvarða hvernig og hvenær hún mætti skemmta sér og tók málin í eigin hendur. Haldnar voru risastórar fjöldasamkomur undir berum himni þar sem tónlistin sameinaði. Þarna var að verða til ný tónlistarstefna og nýtt vímuefni og gagnvirkt samspilið þar á milli gat af sér eitthvað sem annars hefði aldrei orðið. Áherslan var á frelsi, nautnahyggju og persónulega tjáningu, og litið á reifið sem útópíu, safe space. Þar sem allir, óháð kynþætti, kyni, kynhneigð, vitund eða tjáningu, voru jafnir fyrir taktinum og partur af sömu alvitundinni. Það voru í raun mjög margar hliðstæður milli hippanna og reifkynslóðarinnar og þess vegna sérstaklega áhugavert að búmerarnir hafi ekkert skilið í börnunum sínum þegar þau tóku upp á þessu, þó tónlistin hafi vissulega verið öðru vísi.

Á fyrstu árum tíunda áratugarins urðu reifin svo enn þá vinsælli og raftónlistartréð stækkaði með veldisvexti og bætti við sig nýjum greinum því sem næst vikulega. Þegar hljómsveitir eins og The Orb og Future Sound of London blönduðu saman gömlum trommutöktum, náttúruhljóðum og ræðum úr bíómyndum til að skapa algjörlega nýja uppsprettu. Þarna var Mozart raftónlistarinnar, Aphex Twin, að slíta barnsskónum með sýrukenndu sveimtekknói, Autechre mölvaði skilrúmið milli melódíu og ryþma og Goldie var að leggja grunninn að jungle og drum ’n’ bass. Massive Attack og Tricky tóku vinstri snúning á amerísku hiphopi svo úr varð helbreskt trip hop, og þetta var líka áður en Moby byrjaði að semja tónlist fyrir jógatíma og auglýsingar, þegar hann tók Twin Peaks hljóðrás Angelos Badalamenti og umbreytti í reif-þjóðsönginn Go. Gróskan var því sem næst taumlaus og tíðarandinn öskraði á óhefta tilraunamennsku.

Árið 1992 var haldin í Bretlandi stærsta reif-veislan fram að þessu, Castlemorton Common-hátíðin í Worchester Midlands í Bretlandi, þar sem talið er að 30-40 þúsund manns hafi komið saman undir berum himni í heila viku. Mikil fjölmiðlaumfjöllun um viðburðinn vakti hneykslan góðborgara og umræðu í breska þinginu sem leiddi á endanum til lagasetningar. Criminal Justice and Public Order Act sem varð að lögum árið 1994 gaf lögreglu margvíslegar auknar valdheimildir, meðal annars heimild til að þess að leita á fólki, taka úr því lífsýni, og til þess að stöðva „samkomur þar sem fleiri en 20 komu saman til að hlusta á tónlist sem einkennist af endurtekningarsömum töktum“. Tugir þúsunda mótmæltu lögunum og hljómsveitin The Prodigy sömdu lagið Their Law sem andsvar við þeim.

Og Ísland var ekki ósnortið af þessari andspyrnumenningarbyltingu þó hún hafi komið seint, búðir eins og Undirgöngin og Þruman fluttu inn danstónlistarplötur í byrjun tíundar áratugarins og DJ-ar eins og Agzilla, Thor og Maggi Lego spiluðu á skemmtistöðum eins og Tunglinu og Rósenbergkjallaranum. Það voru haldin reif í iðnaðarhúsnæðum í Kópavogi og víðar, það er hálf ótrúlegt að hugsa til þess nú að slíkt hafi verið mögulegt án farsíma, samfélagsmiðla og sponsa frá símafyrirtækjum. Hljómsveitir eins og Ajax og T-World, sem var fyrsti vísirinn að Gusgus, bjuggu til frábæra reiftónlist, til dæmis lagið Ruffage sem kom út 1992.

Þá náði reif-menningin í raun líka að seytla inn í meginstrauminn, þó það hafi mestmegnis verið í útvatnaðri útgáfu; Skífan gaf út hina svokölluðu „Reif í“ safndiska, Reif í sundur, Reif í runnann, Reif í tætlur, Reif í Kroppinn, sem innhéldu aðallega draslaralegt euroteknó. The Prodigy, eins konar U2 danstónlistarinnar, hélt risatónleika í Laugardalshöll. Uxi á Kirkjubæjarklaustri 1995 var fyrsta alþjóðlega tónlistarhátíðin á Íslandi og var ábyggilega innblásin af reifum í Bretlandi en þar spiluðu meðal annars Underworld, Aphex Twin og áðurnefnd The Prodigy – og þegar ég var tólf ára, árið 1994, þótti mjög móðins hjá stelpum að ganga með snuð um hálsinn, tíska sem barst frá reifunum.

Danstónlist og reifmenning var stór partur af íslenskri ungmennamenningu lungann af tíunda áratugnum en ýmislegt varð til þess að stemmingin lognaðist út af, til að mynda mikil og öfgakennd umræða um alsælu og e-pillur, orðræða sem Helgi Gunnlaugsson prófessor í afbrotafræði hefur bent á að hafi borið mikinn keim af siðfári. Það varð upptakturinn að Íslandi án eiturlyfja árið 2000, sem síðan breyttist í 2002, og kynti enn á ný undir mannfjandsamlegri stefnu yfirvalda sem hefur lagt fjölda mannslífa í rúst síðan. Það er  fyrst núna sem við sjáum tilraunir til að vinda ofan af þeirri stefnu sem mæta þó mikilli mótstöðu eins og sjá má af nýlegri atkvæðagreiðslu.

En síðustu ár hefur orðið vart við vaxandi frjálslyndi og hedónisma, ekki síst hjá yngri kynslóðum. Þess hefur mátt gæta í stemmingu á hátíðum eins og Secret Solstice og auknum fjölda af hústökupartíum og útireifum undanfarin tvö ár. Og nú tekur steininn úr, þegar yfirvöld telja sjálfsagt að opna landið fyrir túristakapítalisma en vilja ekki leyfa sauðsvörtum almúganum að djamma lengur en til ellefu á kvöldin út af meintri smithættu. Fólk virðist orðið þreytt á því að hlýða lögreglu og læknum og hefur tekið málin í eigin hendur.

Undanfarið hafa verið haldin reif undir berum himni, á útivistarsvæðum og í skógarrjóðrum, í borginni og rétt fyrir utan hana. Þar er að brjótast út taumlaus og nautnuð lífsorka sem sem hefur kraumað undir yfirborðinu allt of lengi. Og það eru fleiri í vændum. Reifið sem bæði partí og hugmyndafræði virðist vera komið aftur af fullum krafti, og það er aldrei að vita nema þriðja sumar ástarinnar verði árið 2020.

Tengdar fréttir

Tónlist

Teknó á tímum COVID – Exos fastur í Asíu með nýja plötu

Tónlist

Framvörður kynslóðar hættir að dansa

Tónlist

Þegar framtíðin kom í hverri viku

Tónlist

Ástarbréf til táningsára raftónlistarinnar