Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Alþingi: Vísitölutenging bóta og afglæpavæðing felld

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þingi hefur nú verið frestað. Allmörg mál voru til umræðu á þessum síðasta þingfundi sumarsins og um þau greidd atkvæði. Þingfundum verður framhaldið 27. ágúst þegar ræða á efnahagsástandið á tímum kórónuveirunnar.

Guðmundur Ingi Kristinsson ávarpaði þingheim fyrir hönd þingmanna og óskaði þingforseta og þingheimi öllum velfarnaðar um leið og hann þakkaði fyrir vel unnin störf. 

Stjórnarandstöðumál felld

Frumvarp þingmanna Flokks fólksins um að bætur almannatrygginga skyldu breytast í samræmi við launavísitölu var fellt.

Hið sama á við frumvarp Pírata um afnám refsinga fyrir vörslu neysluskammta fíkniefna. Margir stjórnarþingmenn gerðu grein fyrir atkvæði sínu og sögðu markmið frumvarpsins göfugt og mikilvæg en að frumvarpið þurfi frekari vinnu áður en það gæti orðið að lögum.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra sagði málið mikilvægt, hún væri hjartanlega sammála því efnislega og kvaðst myndu halda áfram þeirri vinnu sem til þyrfti í sínu ráðuneyti.

Ferðaábyrgðasjóður stofnaður

Samþykkt var að stofnaður yrði ferðaábyrgðasjóður til að bregðast tímabundið við neikvæðum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru á starfsemi ferðaskrifstofa og skipuleggjenda pakkaferða. 

Ferðaskrifstofur geta óskað eftir láni úr sjóðnum fyrir endurgreiðslu vegna ferða sem þær seldu og áttu að vera farnar frá miðjum mars til 31. júlí. Aðeins má ráðstafa lánsfjárhæðinni til að endurgreiða ferðamanni.

Frumvörp um kirkjuna

Frumvarp um breytingu á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar og fleiri lögum tengdum starfsemi hennar var samþykkt. Lög um kirkjumálasjóð voru felld úr gildi.

Með lögunum er stefnt að einföldun lagaumhverfis varðandi fjárhagsleg tengsl ríkis og kirkju. Það lýtur að þeim greiðslum sem þjóðkirkjan fær úr ríkissjóði.

Í stað greiðslna sem koma til kirkjunnar á grundvelli samnings kemur árleg greiðsla til þjóðkirkjunnar. Laun presta og prófasta, rekstur Biskupsstofu og önnur framlög til reksturs kirkjunnar voru greidd eftir samningnum. 

Þingmannafrumvarp um sálfræðiþjónustu

Þingmannafrumvarp um að fella almenna sálfræðiþjónustu og önnur viðtalsúrræði undir greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga Íslands var samþykkt. Þannig verður slík þjónusta veitt á sömu forsendum og önnur heilbrigðisþjónusta.

Sautján einstaklingum var veittur íslenskur ríkisborgararéttur með lögum. Áttatíu umsóknir bárust. 

Meðal annarra frumvarpa sem samþykkt voru má nefna breytingu á lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna Covid-19, lögum um skatts á fjármagnstekjur og þinglýsingarlögum. Jafnframt nokkuð viðamikil breyting á ýmsum lögum á sviði landbúnaðar og matvæla vegna einföldunar regluverks og stjórnsýslu. 

Einnig voru samþykkt lög um frádrátt á tekjuskatt vegna kolefnisjöfnuðar og félagasamtökum bætt við þann lista sem geta fengið endurgreiddan virðisaukaskatt vegna viðhalds- og byggingavinnu. 

Uppfært klukkan 10:15 - Upphaflega var sagt að tímabilið ferða sem falla undir ferðaábyrgðasjóð renni út 30. júní. Breytingar á frumvarpinu voru samþykktar í nótt. Þetta hefur verið lagfært í textanum hér að ofan.