Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

900 milljarðar í samgönguframkvæmdir

Mynd með færslu
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra. Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Um 8700 störf verða til á næstu árum í tengslum við framkvæmdir vegna samgönguáætlunar. Samgönguáætlun til fimmtán ára var samþykkt samhljóða á Alþingi í gær. Jafnframt  samþykkt lög um samvinnuverkefni í vegaframkvæmdum sem heimila bæði gjaldtöku og  samstarf hins opinbera og einkaaðila. „Það var auðvitað bara stórkostlegt og mjög ánægjulegt að sjá hvað það var stór meirihluti sem var á bak við allt saman,“ segir samgönguráðherra.

Í öllum þeim framkvæmdum getur fólk líka ekið gjaldfrjálsa leið. Þetta eru verkefni á borð við nýja brú yfir Ölfusá, göng í gegnum Reynisfjall, nýja brú yfir Hornafjarðarfljót, nýjan veg yfir Öxi, önnur göng undir Hvalfjörð og Sundabraut. Þá var líka samþykkt aðgerðaáætlun til fimm ára og frumvarp sem lýtur að höfuðborgarsáttmála sem öll sex sveitarfélögin hafa undirritað.

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra segir að á þessu ári ætli ríkisstjórnin að bæta við sex og hálfum milljarði í samgönguframkvæmdir.

„Samtals erum við að tala um framkvæmdir næstu 15 ár fyrir einhverja 900 milljarða,“ segir Sigurður. 

Áttirðu von á að þetta yrði allt saman samþykkt?

„Já, auðvitað leggur maður af stað með það. Þetta er búin að vera vinna í 2-3 ár að ná þessu öllu saman og gaman að það skuli takast allt í einu á sama kvöldinu. Þetta eru mjög ólíkir aðilar sem hafa ekki endilega náð saman og þá er ég kannski að horfa til sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu með ríkinu í samgöngumálum. En einnig að geta bætt svona hressilega í samgönguáætlun sem er þó ekki nema eins árs gömul sem var gildandi fyrir. Og jafnframt að ná þessu nýja fyrirkomulagi um samvinnuframkvæmdir, að ná því öllu saman það var auðvitað bara stórkostlegt og mjög ánægjulegt að sjá hvað það var stór meirihluti sem var á bak við allt saman. Og að allir væru á græna takkanum í samgönguáætlun. Það var mjög ánægjulegt að sjá,“ segir Sigurður Ingi.

Ráðherrann segir mikilvægt að ráðast í framkvæmdirnar einkum til að útvega fjölda fólks störf. „Það er líka skynsamlegt að fara í framkvæmdir jafnvel þó að við þurfum að taka lán fyrir þeim vegna þess að vaxtastigið í landinu er mjög hentugt. Þannig að þetta er akkúrat rétti tíminn að spýta í opinberar framkvæmdir. Það er meðal annars þess vegna sem ríkisstjórnin ákvað að setja 6,5 milljarða aukreitis á þessu ári og erum að vinna að fjárfestingarátaki til næstu þriggja ára sem mun birtast í haust,“ segir Sigurður Ingi.