Tvö sýni greindust jákvæð í gær

29.06.2020 - 11:30
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist - Kr - RÚV
Eitt jákvætt sýni var greint við landamæraskimun í gær og eitt á sýka- og veirufræðideild Landspítalans. Virk smit í landinu eru tólf, líkt og í gær.

Enginn bíður niðurstöðu úr mótefnamælingu samkvæmt nýjustu tölum landlæknis. Fjórir hafa greinst smitandi við landamæraskimun síðan takmörkunum var aflétt 15. júní og nítján hafa reynst með gömul smit og ekki smitandi. 

Síðan á fimmtudag hefur smitrakningateymi unnið að stærsta verkefni sínu hingað til eftir að smit kom upp hjá knattspyrnukonu í Breiðabliki í úrvalsdeild. Þrjú smit hafa greinst innanlands í kjölfarið með sama uppruna, sem talinn er vera útskriftarveisla  fyrir um viku síðan. Það er hjá knattspyrnukonu í Fylki, starfsmanni ráðuneytis ferðamála og það þriðja hjá knattspyrnumanni í Stjörnunni.

Smitrakningin stendur enn yfir og var vinnan við verkefnið hálfnuð í gær þegar Ævar Pálmi Pálmason, yfirmaður smitrakningarteymisins, ræddi við fréttastofu. Hann taldi allt að 370 manns þurfa að fara í sóttkví vegna smitsins.

 
Valgerður Árnadóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi