Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Svöruðu ekki athugasemdum vegna Bræðraborgarstígs

Húsarústir eftir brunan á Bræðraborgarstíg
 Mynd: Sigríður Hagalín Björnsdótt
Fjögur ár eru síðan byggingafulltrúinn í Reykjavík gerði athugasemdir við húsið við Bræðraborgarstíg sem brann á fimmtudag. Þrír fórust í eldsvoðanum. Athugasemdunum var ekki svarað og þeim var ekki fylgt eftir þar sem borist hafði umsókn frá eigendum um breytingar á húsnæði. Þeirri umsókn var hafnað og önnur umsókn hafði ekki verið afgreidd þegar húsið brann.

Þrír létust í eldsvoðanum á Bræðraborgarstíg 1 í Reykjavík á fimmtudag. Landspítalinn veitir ekki upplýsingar um líðan tveggja sem fluttir voru þangað. Þá verst lögregla höfuðborgarsvæðisins allra fregna af rannsókn á eldsupptökum en einn situr í gæsluvarðhaldi vegna málsins.

Stundin fjallaði um bágborið ástand hússins í desember 2015. Hálfu ári síðar sendi byggingarfulltrúi Reykjavíkur eiganda hússins bréf þar sem gerðar voru athugasemdir við ástandið á klæðningu hússins. Því bréfi var ekki svarað. Bréfinu var ekki fylgt eftir þar sem skipulagsfulltrúa barst erindi frá eiganda hússins um breytingar á húsnæðinu, að því er Nikulás Úlfar Másson, byggingafulltrúi í Reykjavík, segir í samtali við fréttastofu. Nikulás segir að hlutverk byggingafulltrúa sé að sjá til þess að ástand hússins skapi ekki hættu en innra byrði þess sé alfarið á ábyrgð eiganda.

Eigendur hússins óskuðu eftir því að fá að sameina lóðirnar á Bræðraborgarstíg 1 og 3 en því hafnaði byggingafulltrúi. Þá var óskað eftir leyfi til að breyta fyrstu hæð Bræðraborgarstígs 1 í litlar íbúðir og gistiheimili en grunnflötur fyrstu hæðar var um 200 fermetrar. Sú umsókn hafði ekki verið afgreidd hjá Reykjavíkurborg. Húsið var úr timbri og múrhúðað að innan og utan.

Forstjóri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar hyggst funda með slökkviliðsstjóra höfuðborgarsvæðisins og byggingafulltrúanum í Reykjavík á morgun.