Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Siglum ekki á Baldri næstu daga“

29.06.2020 - 23:14
Mynd með færslu
 Mynd: Haukur Hólm - RÚV
Ferjan Baldur bilaði á leið sinni milli Stykkishólms og Flateyjar í dag. Baldur lagðist að bryggju í Flatey og strax var hafist handa við að bilanagreina ferjuna. Nú liggur fyrir að önnur tveggja túrbína í ferjunni er ónýt. „Það er ljóst að við siglum ekki á Baldri næstu dagana,“ segir Gunnlaugur Grettisson, framkvæmdastjóri Sæferða, í samtali við fréttastofu.

Gunnlaugur segir að tvo sólarhringa taki að panta nýja túrbínu að utan. Hann getur ekki sagt til um það nákvæmlega hvenær Baldur verður tekinn aftur í gagnið. „Við vonum að hann komist í lag sem fyrst,“ segir hann. Skipið mun sigla án farþega með eigin vélarafli til Stykkishólms í nótt.

Gunnlaugur segir að um 70 til 80 farþegar hafi verið um borð í skipinu þegar bilunin kom upp. Hluti af þessum farþegum er kominn um borð í annað skip, Særúnu, sem siglir nú til Brjánslækjar. Aðrir bíða um borð í Baldri og munu fara með Særúnu til Stykkishólms um eittleytið í nótt. Gunnlaugur segir að þau Baldur og Særún verði sennilega komin til Stykkishólms milli þrjú og hálf fjögur í nótt. 

Margir þeirra sem voru um borð í ferjunni voru með bíl eða önnur farartæki meðferðis. Þeir sem fóru áfram til Brjánslækjar í kvöld þurftu að skilja farartækin sín eftir en þau fara með Baldri til Stykkishólms. Gunnlaugur segir að allt kapp verði lagt á að koma farartækjunum til eigenda sem urðu viðskila við þau. Sumir sem voru á leiðinni til Brjánslækjar hafi þó breytt plönum sínum og ákveðið að fara aftur til Stykkishólms til þess að þurfa ekki að skilja farartækin sín eftir. 

Gunnlaugur segir að annar bátur muni þjónusta Flatey á morgun en nánari útfærsla á ferðunum verður rædd í fyrramálið. Baldur hefur séð Flatey fyrir vatni en Gunnlaugur segir að skipið Særún muni sennilega taka við þessu hlutverki. 

„Ég vil ítreka það að okkur finnst þetta afar leiðinlegt. Það er ofboðslega svekkjandi að lenda í þessu á leiðinni í sumarfrí eða á leiðinni heim,“ segir Gunnlaugur að lokum. 

Mynd með færslu
Farþegar ganga um borð í Særúnu. Mynd: Haukur Holm.
Nína Hjördís Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV