Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Prófanir á Boeing 737 Max að hefjast

29.06.2020 - 04:35
3D imagery, 737 MAX, MAX, 737 MAX 7, 737 MAX8, 737 MAX 9
 Mynd: Boeing
Áætlað er að prófanir á Boeing 737 Max þotna hefjist í Bandaríkjunum í dag. Slíkar vélar hafa ekki flogið með farþega síðan í mars í fyrra.

Tvö flugslys sem kostuðu fjölda mannslífa urðu til þess að flugfélög um allan heim hættu að nota vélarnar. Icelandair er þar á meðal.

Einkum á að prófa hugbúnað vélanna sem grunur hefur verið uppi um að hafi verið meginorsök slysanna. Boeing hefur unnið náið um allnokkra hríð með bandarískum flugmálayfirvöldum (FAA) við að tryggja öryggi og gera vélarnar flughæfar að nýju.

Vonir stóðu til að það tækist fyrir lok síðasta árs en nýtt hugbúnaðarvandamál varð til að hætt var við þau áform. Boeing hætti framleiðslu 737 Max flugvélanna tímabundið í janúar en hófst handa að nýju í maí.

Covid-19 faraldurinn varð til þess að þau flugfélög sem höfðu fyrirhugað kaup á þotum hafa hætt við eða frestað þeim um óákveðinn tíma. Talið er að þrautaganga framleiðandans vegna þessa hafi kostað hann um 19 milljarða Bandaríkjadala.

Það verða tilraunaflugmenn á vegum FAA sem fljúga vélunum í prófununum núna. Gert er ráð fyrir að þær muni taka þrjá daga en þá er björninn ekki unninn. Útilokað er að taka vélarnar aftur í notkun fyrr en eftir endanlegt samþykki flugmálayfirvalda.

Eftir að tilraunafluginu nú lýkur taka við ítarlegri öryggisprófanir sem gætu tekið nokkra mánuði. Boeing er mjög í mun að koma vélunum aftur í notkun á þessu ári en viðbúið er að flugmálayfirvöld annars staðar vilji gera eigin prófanir áður en samþykkt verður að hleypa Boeing 737 Max þotunum í almenna notkun að nýju.