Óttar Magnús með þrennu í sigri Víkings

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Óttar Magnús með þrennu í sigri Víkings

29.06.2020 - 21:13
Þrír leikir voru spilaðir í úrvalsdeild karla í fótbolta í kvöld. Víkingar unnu sinn fyrsta sigur í deildinni líkt og Fylkir, Blikar eru einir á toppi deildarinnar en nýliðar Gróttu eru ennþá án stiga.

FH var með fullt hús stiga eftir tvo leiki en Víkingur, sem vann bikarkeppnina í fyrra, hafði átt í basli í fyrstu leikjum sumarsins. Tvö jafntefli í deildinni og þá fór leikur Víkings gegn Víkingi Ólafsvík í 32-liða úrslitum bikarkeppninnar fyrir helgi alla leið í vítaspyrnukeppni. En Víkingar byrjuðu betur og á 26. mínútu kom Óttar Magnús Karlsson heimamönnum í forystuna.

Staða FH versnaði til muna þegar hálftími var liðinn af leiknum en þá renndi Pétur Viðarsson sér í tæklingu, Atli Hrafn Andrason rak fótinn í höfuð Péturs sem lá óvígur eftir og þurfti skiptingu. Inn kom Atli Guðnason en þremur mínútum eftir skiptinguna kom frábær sókn hjá Víkingum sem endaði með því að Davíð Örn Atlason skoraði framhjá Gunnari Nielsen í marki FH og Víkingar komnir í 2-0. FH-ingar fengu dauðafæri skömmu fyrir hálfleikinn. Ingvar Jónsson, markvörður Víkinga, var þá kominn vel út fyrir vítateig en skot Mortens Beck fór langt framhjá markinu.

Í næstu sókn á eftir fengu Víkingar dæmda aukaspyrnu úti hægra megin. Aðeins tveir menn á vellinum voru fljótir að átta sig, boltasækir Víkinga og Óttar Magnús Karlsson. Óttar Magnús tók aukaspyrnuna hratt og renndi boltanum í markið, ótrúlegt atvik, en Víkingar 3-0 yfir í hálfleik. Þegar fimm mínútur voru liðnar af seinni hálfleik fékk FH dæmda vítaspyrnu þegar Hörður Ingi Gunnarsson féll í teignum eftir viðskipti sín við Dofra Snorrason. Steven Lennon tók spyrnuna og skoraði af öryggi, 3-1. Óttar Magnús innsiglaði svo þrennuna á 83. mínútu og tryggði Víkingum um leið þrjú góð stig, lokatölur 4-1, fyrsti sigur Víkinga í deildinni staðreynd og fyrsta tap FH sömuleiðis. Víkingur fór með sigrinum upp í 5. sætið en FH er stigi ofar í 4. sæti deildarinnar. 

Vítasyrpa í Kópavogi

Breiðablik var með fullt hús stiga fyrir þriðja leik sinn í deildinni í kvöld en nýliðar Fjölnis heimsóttu Blika. Þar kom Kristinn Steindórsson Breiðabliki yfir á 9. mínútu en Kristinn hefur reynst drjúgur í markaskorun Blika það sem af er leiktíðinni. 1-0 stóð í hálfleik en á 51. mínútu fékk Fjölnir dæmda vítaspyrnu. Anton Ari Einarsson varði hins vegar frá Jóhanni Árna Gunnarssyni og Blikar áfram 1-0 yfir. Thomas Mikkelsen tvöfaldaði forystu Blika með marki úr vítaspyrnu á 57. mínútu og enn ein vítaspyrnan var svo dæmd á 72. mínútu. Þá spyrnu átti Fjölnir og Jón Gísli Ström skoraði, 2-1. Gísli Eyjólfsson skoraði þriðja mark Breiðabliks á 84. mínútu og innsiglaði 3-1 sigur Blika, sem eru einir á toppi deildarinnar með fullt hús stiga.

Fylkir vann botnslaginn

Í Árbæ tóku Fylkismenn á móti nýliðum Gróttu en bæði lið voru án stiga eftir fyrstu tvær umferðirnar. Þar var staðan markalaus í hálfleik en Valdimar Þór Ingimundarson kom Fylki í forystu með marki úr vítaspyrnu á 62. mínútu. Valdimar skoraði svo aftur fyrir Fylki 10 mínútum síðar og útlitið dökkt fyrir Gróttumenn. Grótta gat minnkað muninn á 86. mínútu þegar vítaspyrna var dæmd en Aron Snær Friðriksson varði spyrnuna frá Óliver Degi Thorlacius. Fleiri mörk voru ekki skoruð og Fylkir vann sinn fyrsta sigur í Pepsi Max-deildinni í sumar. Grótta vermir botnsætið en nýliðarnir eru enn stigalausir.