Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Öllum úrvalsdeildarliðum boðið í skimun

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Öllum úrvalsdeildarliðum boðið í skimun

29.06.2020 - 10:20
Liðum í Pepsi Max-deildum kvenna og karla hefur verið boðið í skimun fyrir COVID-19. Þrír leikmenn í deildunum hafa verið greindir með veiruna og fjölmargir leikmenn eru í sóttkví.

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, hefur sent íþróttafélögunum tilkynningu þar sem fram kemur að sóttvarnalæknir, Almannavarnir og Íslensk erfðagreining standi að skimuninni. Íslensk erfðagreining sér um framkvæmd og greiningu sýna.

Í boði er skimun fyrir leikmenn og þjálfara karla- og kvennaliða í úrvalsdeild sem og leikmönnum í 2. flokki sömu liða og starfsfólki íþróttamannvirkja. Í tilkynningunni segir að þessi hópur sé meðal annars valinn vegna þess að fólk á þessum aldri eigi samskipti við marga og niðurstöður geti því verið mjög gagnlegar. 

Smit hafa komið upp í kvennaliðum Breiðabliks og Fylkis og karlaliði Stjörnunnar og þá eru kvennalið KR og Breiðabliks í sóttkví ásamt einstaka leikmönnum úr fleiri liðum.