„Mig hefur alltaf langað rosalega mikið að ráða“

Mynd: Albert Eiríksson / Albert Eldar

„Mig hefur alltaf langað rosalega mikið að ráða“

29.06.2020 - 13:30

Höfundar

„Ég hef aldrei sótt um starf fyrr. Ég veit ekki einu sinni hvar prófskírteinið mitt er,“ segir Bergþór Pálsson söngvari og tónlistarmaður sem flytur til Ísafjarðar með Alberti eiginmanni sínum í haust. Á dögunum tók Bergþór nefnilega við starfi skólastjóra tónlistarskólans þar í bæ.

Bergþór Pálsson, söngvari og fagurkeri, var á Ísafirði fyrr í sumar og var staddur á Tjöruhúsinu ásamt Alberti eiginmanni sínum þegar þeir reka augun í auglýsingu þar sem óskað var eftir umsóknum í stöðu skólastjóra tónlistarskólans þar í bæ. „Þarna skýtur þessari hugmynd í kollinn á mér að þetta sé stórsniðugt því alltaf þegar ég kem til Ísafjarðar finnst mér ég vera kominn heim. Þó ég eigi ekki ættir að rekja þangað þá er þannig orka í fjöllunum og í fólkinu sem ég kann rosalega vel við,“ segir hann í samtali við Morgunútvarpið á Rás 2.

Þegar heim var komið eftir ferðalagið vestur fann hann að auglýsingin togaði í hann. Hann ákvað að gefa kost á sér en fyrst þurfti að huga að ýmsu. „Ég hugsaði: Vá, ég hef aldrei sótt um starf fyrr, ég veit ekki einu sinni hvar prófskírteinin mín eru,“ segir hann og hlær. Þau komu síðan í leitirnar næstum fyrir tilviljun svo Bergþór sló til. Fljótlega eftir að umsókn hafði verið send var hann boðaður í viðtal. „Ég hugsaði að ég hefði ýmsa galla enda kominn á sjötugsaldur og hef ekki unnið við stjórnun hingað til - en mig hefur alltaf langað rosalega mikið að ráða,“ segir hann glettinn. Mikilvægast fyrir sig sem stjórnanda segir hann að sé þó fyrst og fremst að hlusta og að vera með fólkinu. 

Nú stendur til að hjónin flytji vestur og þó húsnæðismálin séu ekki komin á hreint er Bergþór bjartsýnn. „Þetta bjargast allt og kemur til mín eins og svo margt í lífinu,“ segir hann og bætir því við að sér sé eðlislægt að stökkva á það sem er nýtt og ögrandi. 

Í sumar hafa Albert og Bergþór ferðast um landið og haldið úti ferðabloggi með myndum þar sem þeir fjalla um þá staði sem þeir hafa heimsótt. „Það hefur verið svo margt að gerast í ferðaþjónustu undanfarin ár og okkur langaði að kynna fyrir fleirum það sem við erum að upplifa í sumar,“ segir Bergþór. Þeir hafa komið í Vestmannaeyjar, Grímsey og á Hauganes, farið á tónleika undir berum himni og smakkað saltfiskpizzu svo eitthvað sé nefnt. Næst á dagskrá eru svo búferlaflutningar á Vestfirðina.

Rætt var við Bergþór Pálsson í Morgunútvarpinu á Rás 2. 

Tengdar fréttir

Tónlist

„Því ekki að kaupa Tortóla frekar en að fela peninga?“

Tónlist

Framhaldslíf Skólarapps gleður ítalskan höfund lagsins