Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Knattspyrnan bara þversnið af samfélaginu, segir Klara

Mynd: Arnaldur Halldórsson / ÍSÍ

Knattspyrnan bara þversnið af samfélaginu, segir Klara

29.06.2020 - 08:33
Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri KSÍ segir að erfitt sé fyrir sambandið að gera áætlanir eftir að smit greindust hjá leikmönnum nokkurra knattspyrnuliða hér á landi. Leikjum hefur þegar verið frestað og meiri breytinga er að vænta.

Klara var gestur í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Smit hafa greinst hjá fjórum liðum í úrvalsdeildum karla og kvenna og hjá einu liði í 1. deild kvenna. Þá er dómari sem dæmdi í leik Breiðabliks og KR í úrvalsdeild kvenna í sóttkví.
Klara segir að að mótanefnd sambandsins ráði ráðum sínum á fundi síðar í dag. Fjölmörgum leikjum hefur þegar verið frestað og leikjadagskrá verið endurskipulögð. KSÍ ráði enn sem komið er við stöðuna.

Klara sagði að viðbúið hefði verið að þessi staða gæti komið upp. „Þetta er ekkert bara að koma upp í knattspyrnunni. Þetta er að koma upp víða í Evrópu. Það sést að smitum er því miður að fjölga aftur. Það hefur alltaf verið varað við því að það gæti gerst. Knattspyrnan er bara þverskurður af samfélaginu. Þannig að ég held að þetta eigi því miður ekki að koma rosalega á óvart,“ sagði Klara.

Enginn þvingaður til að spila fótbolta

Um helgina ákváðu leikmenn Þórs að spila ekki á móti Leikni á Fáskrúðsfirði sem hafði átt leik við Stjörnuna. Hún er eitt þeirra liða þar sem smit hefur greinst. Klara segir að það sé ákvörðun einstakra leikmanna hvort þeir leika með liðum sínum. Við þvingum engan til að spila fótbolta, þetta fólk er ekki í vinnu hjá okkur. Það eru margir hverjir í vinnu hjá sínum félögum  þannig að þetta eru mál sem þarf að skoða innan hvers félags.“

Klara segir að KSÍ hafi verið í miklu samstarfi við smitrakningateymi sóttvarnalæknis og meðal annars látið teyminu í té upptökur af leikjum þar sem sjá megi samskipti leikmanna og dómara. 

 

 

Tengdar fréttir

Íþróttir

Smitið í Stjörnunni talið tengjast Breiðabliks smitinu

Innlent

Leikmaður Stjörnunnar greindur með COVID-19

Fótbolti

Leikjum hjá Breiðabliki og KR frestað vegna smitsins