Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Kári staðfestir bandarískan uppruna smitsins

29.06.2020 - 13:10
Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan
Raðgreining Íslenskrar erfðagreiningar á stökkbreytingu veirunnar í þeim þremur einstaklingum sem smituðust af knattspyrnukonunni sem nýkomin var til landsins frá Bandaríkjunum í síðustu viku staðfestir að smitið kom upphaflega þaðan.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, greinir frá atburðarásinni við smitrakninguna í pistli á Facebook-síðu sinni í dag. Hann segir að þótt stökkbreytingartíðni veirunnar sé ekki mikil sé hún búin að smita að minnsta kosti tíu milljón manns þannig að stökkbreytingarmynstur hennar verði með tímanum nokkuð einkennandi fyrir ólík landsvæði. 

„Veiran í öllum þremur er með sama mynstur og er það án nokkurs vafa frá Bandaríkjunum þannig að atburðarásin var óyggjandi eftirfarandi: Fótboltakonan smitaðist í Bandaríkjunum og það er ljóst að hún smitaðist af sambýliskonunni en ekki sambýliskonan af henni vegna þess að fótboltakonan var með svo lítið magn af veirunni þegar hún kom til landsins að hún fannst ekki.“

Ljóst að erfitt er að finna veiruna hjá nýsmituðum

Kári dregur eftirfarandi ályktanir af tilfellinu:  

„i. Það er ljóst að veiruprófið er ekki fullkomið og þessi saga opinberar einn af veikleikum þess sem er að mjög snemma í sýkingu, áður en veiran er búin að ná almennilega fótfestu, er erfitt að finna hana. Næmi prófsins er hins vegar töluvert meira en 70% og prófið dugði okkur til þess að hemja fyrsta kapítula faraldursins fljótar og betur en flestir.

ii. Skimun á landamærum minnkar hins vegar mjög líkurnar á því að smitandi einstaklingar komist inn í landið án þess að fara í einangrun. Við höfum til þessa náð þremur og misst einn þannig að af okkar takmörkuðu reynslu hefur skimunin fækkað tilfellum um 75%.

iii. Með því að taka góða sögu af sýktum einstaklingum og beita víðtækri skimun, smitrakningu, mótefnamælingu og raðgreiningu er hægt að sækja nokkuð nákvæman skilning á því sem er að gerast og bregðast við því.“