Kæra niðurstöðu útboðs á akstursþjónustu fatlaðra

29.06.2020 - 21:38
Akstursþjónusta fatlaðra.
 Mynd: Fréttir
Tilboðsgjafar sem lutu í lægri hlut fyrir Hópbílum hf. í útboði Strætó á akstursþjónustu fatlaðra hafa kært niðurstöður þess til kærunefndar útboðsmála. Tilboðsgjafarnir voru alls sex en Hópbílar hf. munu sjá um akstursþjónustuna frá 1. júlí.

Tilboðin voru opnuð 7. maí síðastliðinn. Sex bárust samdægurs og voru á bilinu 2,9 til 4,3 milljarðar króna. Hópbílar áttu næsthæsta tilboðið en það nam ríflega 4,2 milljörðum króna. Jóhannes S. Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, segir í samtali við fréttastofu að Hópbílar hf. hafi þrátt fyrir það átt lægsta gildandi tilboð. Fjögur af sex tilboðum sem bárust hafi ekki uppfyllt tilskildar kröfur. Tilboðsgjöfum útboðsins var tilkynnt um ákvörðunina fyrir rúmri viku. 

Greint var frá því fyrr í mánuðinum að sumir af tilboðsgjöfum útboðsins væru ósáttir við framkvæmd þess. Um miðjan júní hafði Strætó ekki enn tilkynnt um hvaða tilboði yrði gengið að en akstursþjónustan á að hefjast 1. júlí. Tilboðsgjöfum þótti tíminn til undirbúnings of skammur. 

Samtök ferðaþjónustunnar óskuðu eftir því að tilboðsfrestur yrði framlengdur um ár en Strætó varð ekki við þeirri bón.

Segir útboðið sniðið að einum aðila

Andrés Eyberg Magnússon, eigandi Ferðó ehf. og sá sem bauð lægst í verkið, segist ósáttur við niðurstöðu útboðsins. Hann furðar sig á því að tilboð fjögurra tilboðsgjafa, þar á meðal hans sjálfs, hafi ekki talist gildandi.

Hallgrímur Lárusson, framkvæmdastjóri Snælands Grímssonar ehf., tekur í sama streng. Hann er einnig í hópi þeirra tilboðsgjafa sem ekki fengu verkið. Hallgrímur segir að tilboð fyrirtækisins hafi verið fellt á tæknilegum og faglegum forsendum. Hann vill meina að ekki hafi verið nokkur möguleiki fyrir aðra tilboðsgjafa en Hópbíla hf. að standast þær kröfur sem gerðar voru í útboðinu. 

 „Þetta útboð er bara sniðið að einum aðila og sett þannig upp að það er ómögulegt fyrir nokkurn annan að standast þessa útboðsskilmála,“ segir Hallgrímur. „Það er afar slæmt að svona útboð skuli ekki vera haldin á jafnréttisgrundvelli,“ bætir hann við.

Andrés segir að hann, auk annarra tilboðsgjafa sem ekki fengu verkið, séu búnir að kæra niðurstöðuna til kærunefndar útboðsmála.

Lögðu fram bókun um málið

Vigdís Hauksdóttir lagði fram bókun um málið á fundi borgarráðs á fimmtudag fyrir hönd Miðflokksins. Þar gagnrýnir hún vinnubrögð Strætó við útboðið.

„Þetta útboð er hneyksli en því miður alveg í takti við vinnubrögð Strætó bs. Nú þegar hefur Strætó greitt hátt í einn milljarð vegna gallaðra útboða, málaferla og skaðabóta sem af þeim hefur hlotist. Enn er hoggið í sama knérunn,“ segir í bókuninni. 

„Jöfnunarsjóði sveitarfélaga blæðir við þessa ákvörðun stjórnar Strætó upp á tæpan 1,3 milljarð sem nemur lægsta tilboði og því tilboði sem var tekið. Það er ljóst að þeim ákvæðum um að gengið skuli að lægsta tilboði í útboði hefur ekki verið fylgt og er það lýsandi fyrir hugarfarið sem ríkir innan Strætó bs. að ríkissjóður sé ótæmandi hít sem ber að mjólka,“ segir jafnframt í bókuninni. 

„Þetta er alveg í stíl við allt sem Strætó kemur nálægt,“ segir Vigdís Hauksdóttir í samtali við fréttastofu. 

Sjálfstæðisflokkurinn, Sósíalistaflokkurinn og Flokkur fólksins lögðu hver um sig fram bókun þar sem útboðið var gagnrýnt. 

„Það er ámælisvert að draga svona lengi að svara þeim tilboðum sem bárust vegna sameiginlegrar akstursþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu. Akstur á að hefjast 1. júlí og augljóst er að erfitt verður að standast þær kröfur með nær engum fyrirvara. Eins er dapurlegt að ekki er tekið einu af hagstæðustu tilboðunum sem bárust og voru mun hagkvæmari,“ segir í bókun Sjálfstæðisflokksins.

 

Nína Hjördís Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi