Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Íslenskir karlar verða elstir í Evrópu

29.06.2020 - 10:02
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Íslenskir karlar verða nú elstir allra evrópskra karla, meðalævilengd þeirra var 81 ár í fyrra og meðalævilengd íslenskra kvenna var 84,2 ár. Munurinn á meðalævilengd karla og kvenna fer minnkandi.

Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofu Íslands. Þar segir að meðalævilengd karla hafi lengst um sex ár frá árinu 1988 og konur geta vænst þess að lifa að meðaltali fjórum árum lengur en þá. 

Á tímabilinu 2011 - '19 jókst meðalævilengd háskólamenntaðs fólks meira en þeirra sem eru með grunn- og framhaldsskólamenntun. Fólk með  háskólamenntun getur nú vænst þess að lifa allt að fimm árum lengur en þeir sem eru með grunnskólamenntun. 

Með meðalævilengd er átt við hversu mörg ár fólk eigi að meðaltali ólifuð við fæðingu ef miðað er við aldursbundna dánartíðni. Í tölum Hagstofu segir að hún hafi lækkað á undanförnum áratugum. Það þýðir að fólk lifir að jafnaði lengur en reiknuð meðalævilengd segi til um. 
 

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir