Húsavík þýtur upp vinsældalista iTunes

Mynd með færslu
 Mynd: John Wilson - Netflix

Húsavík þýtur upp vinsældalista iTunes

29.06.2020 - 16:26

Höfundar

Kraftballaðan Húsavík, í Eurovision-mynd Netflix, er á meðal vinsælustu laga á heimsvísu samkvæmt vinsældalista iTunes.

Eurovision-myndin, sem frumsýnd var á Netflix á föstudag, er eðli málsins samkvæmt stútfull af tónlist. Þar á meðal er lagið Húsavík þar sem önnur aðalpersóna myndarinnar, leikin af Rachel McAdams, syngur um heimahagana.

Talsverður metnaður hefur verið lagður í tónlist myndarinnar. Savan Kotecha, lagahöfundur, er þar potturinn og pannan en hann hefur samið slagara fyrir Ariönu Grande, Katy Perry og Ellie Goulding. Kotecha stefndi saman hinum og þessum Skandínavíubúum til að semja lög myndarinnar og það virðist hafa borið árangur því lagið Húsavík situr nú í 10. sæti á vinsældalista iTunes á heimsvísu. Þegar þetta er skrifað má einnig finna lagið í 5. sæti yfir vinsælustu lög í Bretlandi, 9. sæti í Bandaríkjunum og því þriðja í Ástralíu. Gagnavefurinn Kworb birtir yfirlitin.

Lagið er flutt af söngkonunni My Marianne, sem ljær persónu Rachel McAdams söngrödd sína í myndinni. Það er að hluta sungið á íslensku og í viðlaginu má heyra hana syngja: „Vera með þér, með þér / Í Húsavík við Skjálfanda / Í heimabærinn minn“.

Í merkilega ítarlegri úttekt vefmiðilsins Vulture á öllum lögum myndarinnar segir Kotecha að lagið hafi verið það snúnasta í samningu. Það marki ákveðinn hápunkt í myndinni og því mikið undir. „Það gæti breytt sjálfri sögunni ef vel tekst til; það hleður hana svo mikilli tilfinningavigt,“ segir Kotecha. Höfundarnir ákváðu svo að reyna sig við íslenskuna með hjálp Google Translate og er afraksturinn eins og heyra má ekki alveg fullkominn, en það má virða viðleitnina.

Tengdar fréttir

Tónlist

„Þetta er kannski ekki besta landkynningin“

Kvikmyndir

Listaritstjóri BBC móðgaður fyrir hönd Íslendinga

Kvikmyndir

Íslenskum Eurovision-aðdáendum líkar mynd Ferrells

Kvikmyndir

Eurovision-mynd Ferrells ekki sögð upp á marga fiska