Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Greina meiri áhyggjur af COVID-19 en minni viðbrögð

29.06.2020 - 17:15
Mynd með færslu
Mynd úr safni. Mynd: Landspítali/Þorkell Þorkelsso
Fólk óttast meira að smitast af COVID-19 samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallups, hefur meiri áhyggjur af heilsufarslegum áhrifum af völdum veirunnar en breytir ekki hegðun vegna þess, sé miðað við síðustu könnun.

Færri breyta venjum sínum til að forðast smit

Fólki fækkar sem breytir venjum sínum mjög mikið til að forðast COVID-19 smit og mælast nú 9,3%. Það hefur fækkað í hópnum í hverri könnun síðan í apríl. 53,2% segjast nú hafa breytt venjum sínum frekar mikið en 14,4% frekar lítið, 21,1% segja hvorki né.

 

Þá telja rúm 79% hæfilega mikið gert úr heilsufarslegri hættu sem stafar af COVID-19 á Íslandi. Rúm tíu prósent telja aðeins of lítið gert úr henni en samtals 9% telja aðeins eða allt of mikið gert úr hættunni. 

Fjölgar sem telja of lítið gert til að bregðast við COVID-19

Fleiri telja að almannavarnir og heilbrigðisyfirvöld geri of lítið til að bregðast við veirufaraldrinum, 8,6% segja aðeins of lítið meðan 85,7% segja hæfilega mikið gert. 

Fólk treystir ríkisstjórninni betur til að takast á við efnahagsleg áhrif af COVID-19. Um 66% segja ríkisstjórnina gera hæfilega mikið fyrirbyggja eða bregðast við neikvæðum áhrifum af völdum COVID-19.

Könnunin var netkönnun og framkvæmd milli 20. og 28. júní. Úrtakið tók til 1583 manns, 18 ára og eldri. Þátttökuhlutfall var 52,3%.