Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Francois Fillon bíður dóms

Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Til stendur að kveða í dag upp dóm yfir Francois Fillon fyrrverandi forsætisráðherra Frakklands. Hann var ákærður árið 2017 fyrir að misfara með opinbert fé.

Fillon var gefið að sök að hafa haft Penelope eiginkonu sína og börn þeirra á opinberri launaskrá um árabil án þess að þau ynnu handtak. Saksóknari hefur krafist fimm ára fangelsisdóms yfir Francois og þriggja ára skilorðsbundins dóms yfir Penelope. 

Marc Joulaud sem leysti Fillon af á franska þinginu meðan hann gegndi ráðherraembætti gæti fengið tveggja ára skilorðsbundinn dóm fyrir að hafa haldið áfram að greiða Penelope laun. 

Þegar málið komst í hámæli var hann í framboði til embættis forseta Frakklands og þótti nokkuð sigurstranglegur. Fillon mótmælti ásökununum og sagði eiginkonuna sannarlega hafa unnið fyrir þeirri rúmu milljón evra sem hún fékk greidda. 

Lögmenn Fillons krefjast þess nú að málið verði tekið upp að nýju. Fyrrverandi yfirmaður hjá saksóknara sem rannsakar efnahagsbrot hefur upplýst að hafa verið beitt þrýstingi til að málshöfðun gegn Fillon gengi hratt fyrir sig.

Samþykki dómari kröfur lögmannanna gæti dómsuppkvaðning tafist um nokkra mánuði. Ef ekki, þá fellur dómur í dag.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir