„Autt atkvæði er autt atkvæði“

Mynd með færslu
Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata. Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
„Þetta stangast á við lög um alla aðra atkvæðagreiðslu,“ segir Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata. Hann lagði fram frumvarp á Alþingi í dag þar sem lagt er til að við atkvæðagreiðslu um gildi kjarasamnings teljist autt atkvæði ógilt. Tilefnið er nýlegur úrskurður Félagsdóms um að auðir seðlar skyldu taldir með í atkvæðagreiðslu um kjarasamning Félags íslenskra náttúrufræðinga og ríkisins í vor.

Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar varð að 265 félagsmenn samþykktu samninginn, 278 höfnuðu honum og 21 skilaði auðu. Félagið túlkaði niðurstöðurnar þannig að hann hefði verið felldur þar sem fleiri höfnuðu honum en samþykktu.

Ríkið taldi aftur á móti að samningurinn hefði verið samþykktur þar sem hlutfall þeirra sem vildu fella hann var minna en 50% af öllum greiddum atkvæðum. Félagsdómur staðfesti það með úrskurði sínum 24. júní síðastliðinn.

Í frumvarpi Björns Levís er lagt til að við talningu atkvæða skuli autt atkvæði ekki talið með þegar heildarfjöldi greiddra atkvæða er tilgreindur. „Til að atkvæði teljist gilt og til heildarfjölda greiddra atkvæða verður sá er atkvæði greiðir að taka afstöðu til þess hvort kjarasamningur skuli felldur eða samþykktur,“ segir í texta frumvarpsins. Þar segir einnig að meginmarkmið þess sé að taka af öll tvímæli um niðurstöðu atkvæðagreiðslu um gildi kjarasamnings samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur og gera slíka atkvæðagreiðslu sambærilega öðrum atkvæðagreiðslum, til dæmis alþingiskosningum þar sem auð atkvæði teljist ógild.

Gangi í berhögg við alla aðra atkvæðagreiðslu

„Ég skil þennan úrskurð þannig að þetta eigi þá við um alla kjarasamninga, bæði þá sem eru gerðir á almennum og opinberum vinnumarkaði,“ segir Björn Leví. „Úrskurðurinn gengur í berhögg við alla aðra atkvæðagreiðslu, meðal annars á Alþingi. Þar eru bara talin já-in og nei-in. Það er einfaldlega ekki hægt að túlka autt atkvæði sem annaðhvort já eða nei. Autt atkvæði er autt atkvæði.“

Björn Leví lagði frumvarpið fram í morgun, en þinglok eru áætluð í dag eða í síðasta lagi á morgun. Aðspurður segist hann ekki eiga von á því að frumvarpið fái afgreiðslu á yfirstandandi þingi. „Nei, alls ekki. En mér fannst að þetta yrði að koma fram strax sem viðbrögð við úrskurðinum.“

 

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi