Fréttastofa RÚV greindi frá þessu í gærkvöld en leikmaðurinn smitaðist líklega í útskriftarveislu líkt og leikmaður í karlaliði Stjörnunnar. Ákveðið verður í dag hvort Fylkisliðið fer í sóttkví. Leikmaðurinn kom ekki við sögu í leik Fylkis og Þróttar í síðustu umferð og þarf Þróttarliðið því ekki að fara í sóttkví.
Leikmaður í karlaliði Breiðabliks var í sömu útskriftarveislu og er nú í sóttkví. Leikmaður í kvennaliði Breiðabliks var sá sem smitaðist fyrst og eru bæði kvennalið Breiðabliks og KR nú í sóttkví. Um 400 manns eru í sóttkví í heildina.
Um helgina ákvaðu leikmenn í karlaliði Þórs frá Akureyri að taka ekki þátt í leik liðsins gegn Leikni Fáskrúðsfirði vegna mögulegrar smithættu. Leiknismenn mættu Stjörnunni nokkrum dögum fyrr.
Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, sagði í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun að KSÍ ráði enn sem komið er við þær frestanir sem liggja fyrir og viðbúið er að þurfi að gera. Fjölmörgum leikjum hefur verið frestað og er búið að endurskipuleggja leikjadagskrána oftar en einu sinni.