Afstaða styður frumvarp um afglæpavæðingu

29.06.2020 - 00:48
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Afstaða, félag fanga, lýsir yfir afdráttarlausum stuðningi við frumvarp Pírata um afnám refsinga fyrir vörslu neysluskammta fíkniefna.

Mat félagsins er að með því megi auka möguleika fíkla á að takast á við vanda sinn. Afstaða telur einnig að frumvarpið ætti að ná yfir lyfseðilskyld lyf.

Mat Afstöðu er að miklum kostnaði hins opinbera við rannsókn, dómsmeðferð og refsingu fíkla sé betur varið í annað. Biðlistar fangelsanna hafi sömuleiðis lengst mjög í kórónuveirufaraldrinum og margt þess fólks sem bíður afplánunar sé sjúklingar sem fangelsi lækni ekki.   

Í yfirlýsingu frá Afstöðu segir að þekkt sé að fíklar sjái ekki tilgang í því að hætta neyslu því ógreiddar sektir í fíknefnamálum leiða að lokum af sér fangelsisvist. Fangelsi séu gróðrarstía neyslu. Þannig festist fíklar í viðjum neyslu sinnar.

Um sé að ræða sjúkdóm sem ekki verði kveðinn niður með refsingum heldur þurfi að aðstoða fíkla við að ná bata.

Píratar náðu að knýja fram atkvæðagreiðslu um frumvarpið síðastliðinn föstudag. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi