Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

„Því ekki að kaupa Tortóla frekar en að fela peninga?“

Mynd: Úr einkasafni / Úr einkasafni

„Því ekki að kaupa Tortóla frekar en að fela peninga?“

28.06.2020 - 16:05

Höfundar

Goðsagnakennda danssveitin FM Belfast lofsöng Karíba-hafið í laginu Par Avion sem flutt var á klúbbum og tónleikastöðum um allan heim mörgum árum áður en þau heimsóttu staðinn í alvöru. Þau urðu gáttuð yfir að ríkt fólk keypti sér ekki eyju frekar en að húka í íslenskri rigningu í jakkafötum.

Stuð- og partýsveitin FM Belfast var þekkt fyrir sérstaklega kraftmikla sviðsframkomu. Hljómsveitin var stofnuð árið 2005 í Reykjavík og gerði allt vitlaust á goðsagnakenndum tónleikastöðum á borð við Tunglið, Faktorý, Pravda og Nasa sem allir hafa kvatt sína jarðnesku vist. Hjónin Lóa Hjálmtýsdóttir og Árni Rúnar Hlöðversson eru á meðal stofnenda sveitarinnar og þau hittu Lovísu Rut Kristjánsdóttur í þættinum Geymt en ekki gleymt og rifjuðu upp fyrstu breiðskífu sveitarinnar, How to make friends. 

Símtalið sem loks leiddi þau á áfangastað

Lagið Par Avion þekkja allir aðdáendur sveitarinnar en titill lagsins merkir Með flugi. Það fjallar um ljúfa dvöl í Karíba-hafinu en þangað hafði hljómsveitin aðeins komið í draumum sínum þegar lagið var samið. „Við lástum frétt um konu sem leigði sér hús í Karíba-hafinu á 17 þúsund krónur á mánuði. Við fórum að láta okkur dreyma,“ rifjar Lóa upp enda kemst maður ekki langt á slíkri upphæð hér á landi.

Mynd með færslu
 Mynd: FM Belfast
FM Belfast.

Lagið varð til og byggt á skýjaborgum og var spilað fyrir sveittan dansandi lýð um alla Evrópu. En það var ekki fyrr en átta árum síðar sem lagið teymdi þau alla leið á áfangastað. Einn daginn var samband við þau og þau beðin um leyfi til að nota lagið í auglýsingu fyrir Airbnb-íbúð í Karíba-hafinu.

Skógi vaxin eyja og túrkís litað haf

Þegar Árni og Lóa voru spurð hvað það myndi kosta að nota lagið í auglýsingu sögðu þau: „Tíu nætur í húsinu þínu,“ meira í gríni en alvöru. En bónin var samþykkt og þau héldu loks til eyju í Karíba-hafinu þar sem þau dvöldu ásamt vinum sínum í rúma viku. „Við enduðum í alvöru í Karíba-hafinu og þetta er ótrúlegasti staður sem ég hef komið á á ævi minni. Þar var bara strönd og engir ferðamenn nema við. Ef þú syntir aðeins í sjónum og horfðir til baka var það eins og að horfa á Jurassic Park, skógi vaxin eyja og túrkíslitað haf.“

Horfðu á Tortólaeyju

Þetta var á þeim tíma sem upplýsingum úr Panamaskjölunum hafði nýverið verið lekið og þótti þeim sérstaklega skrýtið að horfa yfir á Tortóla-eyju sem þá var mikið á milli tannanna á fólki vegna skattaskjólanna sem mikið voru í umræðunni. „Við vorum að pæla í að fara þangað en svo vorum við bara: Æ hvað erum við að fara að gera þangað? Þá var ég bara: Af hverju er fólk sem er það ríkt að það þarf að fela peningana sína, af hverju býr það ekki í Karíba-hafinu frekar en að vera hér? Þau gætu keypt sér eyju frekar en að vera hér í jakkafötunum,“ segir Lóa og hlær. 

Lovísa Rut Kristjánsdóttir ræddi við Lóu og Árna í Geymt en ekki gleymt á Rás 2.

 

Tengdar fréttir

Tónlist

„Djamm er ekki bara djamm“

Bókmenntir

Hvers vegna glápa Reykvíkingar á mig?

Tónlist

„Við eigum næstum því tíu krakka samtals“