Stuð- og partýsveitin FM Belfast var þekkt fyrir sérstaklega kraftmikla sviðsframkomu. Hljómsveitin var stofnuð árið 2005 í Reykjavík og gerði allt vitlaust á goðsagnakenndum tónleikastöðum á borð við Tunglið, Faktorý, Pravda og Nasa sem allir hafa kvatt sína jarðnesku vist. Hjónin Lóa Hjálmtýsdóttir og Árni Rúnar Hlöðversson eru á meðal stofnenda sveitarinnar og þau hittu Lovísu Rut Kristjánsdóttur í þættinum Geymt en ekki gleymt og rifjuðu upp fyrstu breiðskífu sveitarinnar, How to make friends.
Símtalið sem loks leiddi þau á áfangastað
Lagið Par Avion þekkja allir aðdáendur sveitarinnar en titill lagsins merkir Með flugi. Það fjallar um ljúfa dvöl í Karíba-hafinu en þangað hafði hljómsveitin aðeins komið í draumum sínum þegar lagið var samið. „Við lástum frétt um konu sem leigði sér hús í Karíba-hafinu á 17 þúsund krónur á mánuði. Við fórum að láta okkur dreyma,“ rifjar Lóa upp enda kemst maður ekki langt á slíkri upphæð hér á landi.