Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Síkvikt forsetaembætti

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fyrstu fjórum árum Guðna Th. Jóhannessonar sem forseta svipar að mörgu leyti til tíma Kristjáns Eldjárn og Vigdísar Finnbogadóttur í embætti. Almennt virðist vera litið á forsetann sem sameiningartákn, hann þykir alþýðlegur og hefur lagt sig í líma við að styðja við góð málefni.

Eliza Reid eiginkona Guðna hefur einnig verið áberandi út á við. Líkt og á forsetatíð Kristjáns Eldjárn býr nú fjölskylda með börn á Bessastöðum.

Forsetinn er þó ekki und­an­þeg­inn gagn­rýni. Honum er á annan bóginn hrósað fyrir mildi og mann­gæsku en á hinn bóginn þykir einhverjum hann ekki hafa verið nægi­lega ákveðinn og afgerandi í samskiptum sínum við stjórnmálamenn.

Stundum er að sjá sem aðfinnsl­urnar í garð forsetans byggi á ýmiss konar túlk­unum á hlut­verki og verk­sviði forseta sem mögu­lega stand­ast ekki alltaf nán­ari skoð­un. Það kann að vera vegna þess að ákvæði stjórn­ar­skrár­innar er hægt að túlka á ýmsan hátt.

Fyrsti forseti Íslands var kjörinn af Alþingi á Þing­völlum 17. júní 1944. Sveinn Björns­son, sem hafði gengt emb­ætti rík­is­stjóra frá því Danmörk var hernumin 1940, hlaut 30 atkvæði en Jón Sig­urðs­son skrif­stofu­stjóri Alþingis fimm. Þing­menn voru 52.

Til stóð að gengið yrði til almennra forsetakosninga strax árið eftir en enginn nema sitjandi forseti gaf kost á sér.

Fyrstu tveir for­setar lýð­veld­is­ins, Sveinn og Ásgeir Ásgeirsson, voru á margan mjög póli­tískir. Sveinn hafði verið sendiherra og Ásgeir þingmaður og ráðherra.

Þeir höfðu báðir tals­verð afskipti, leynt og ljóst, af stjórn­málum og stjórn­mála­mönn­um. Enda voru þeir langt í frá óumdeild­ir, hið minnsta meðal stjórnmálamanna landsins.

Þriðji for­set­inn, fornleifafræðingurinn Kristján Eldjárn, gegndi sínu emb­ætti á storma­sömum áttunda ára­tugnum sem ein­kennd­ist af póli­tískum og efnahagslegum óstöð­ug­leika.

Hann, eins og fleiri for­set­ar, stóð frammi fyrir ýmsum áskorunum. Til að mynda íhug­aði hann myndun utan­þings­stjórnar þegar allt virt­ist í hnút árið 1980.

Vigdís Finnbogadóttir, fjórði for­set­i lýðveldisins, þurfti að svara spurn­ingum um kyn­ferði sitt, hjú­skap­ar­stöðu og yfir­staðin veik­indi meðan á kosn­inga­bar­átt­unni stóð.

Kjör hennar vakti mikla athygli, ekki síst erlendis, enda fyrsta konan í heiminum til að vera lýðræðislega kjörinn forseti. Henni tókst að sanna að ein­hleyp móðir geti hæg­lega gengt emb­ætt­inu þrátt fyrir háværar efa­semdaraddir.

Þótt ekki væri jafn stormasamt í stjórnmálalífi landsins og áratuginn á undan, rík­is­stjórnir langlíf­ari og verðbólgudraugurinn á undanhaldi hefur Vigdís sagt að síð­asta kjörtíma­bil hennar hafi verið henni mjög erfitt á nokkra lund.

Einkum íþyngdu tvö mál henni og annað þeirra er enn umdeilt á Íslandi; inn­gangan í EES. Hug­takið sam­ein­ing­ar­tákn þjóðar yfir for­set­ann virð­ist hafa orðið til ein­hvern tíma á fyrstu ára­tugum lýð­veld­is­ins og Vigdís uppfyllti það hlutverk.

Ólafur Ragnar Grímsson var kjörinn fimmti for­set­i Íslands árið 1996. Hann hóf afskipti af stjórnmálum mjög ungur og sjaldan ríkti lognmolla um hann á því sviði.

Óhætt er að fullyrða að hann setti eindregið mark sitt á forsetaemb­ætt­ið. Hann varð fyrstur forseta til að beita mál­skots­rétti 26. greinar stjórn­ar­skrár­innar sem bæði stjórn­mála­menn og ýmsir fræði­menn sögðu dauðan eða jafn­vel hættu­legan bók­staf.

Ólafur hóf for­seta­feril sinn af hægð en varð æ aðsóps­meiri á póli­tíska svið­inu eftir því sem leið á tutt­ugu ára setu hans í emb­ætt­inu. Hann lét mjög til sín taka og var jafnvel í andstöðu við ríkisstjórn um tíma.

Vin­sældir hans og fylgi sveifl­uð­ust mjög ákvörðunum hans, enda kvaðst hann ekki hafa mik­inn áhuga á að vera sam­ein­ing­ar­tákn.

Ljóst er af tölum að Guðni Th. Jóhannesson verður forseti Íslands næstu fjögur árin. Hvað mun gerast á þeim tíma er vandi um að spá en forsetaembættið er í stöðugri þróun í takt við tíðaranda og hvern forseta.